04/10/2024

Kynningarfundur um svæðisleiðsögunám

Fræðslumiðstöð Vestfjarða er að fara af stað með nám í svæðisleiðsögn á Vestfjörðum og í Dölum. Námið hefst í febrúar en skráningu lýkur föstudaginn 29. janúar. Kynningarfundur um námið verður haldinn í fjarfundi miðvikudaginn 27. janúar og hefst kl 20. Hann verður aðgengilegur í Grunnskólanum á Reykhólum, Þekkingarsetrinu Skor á Patreksfirði og hjá Fræðslumiðstöðinni á Ísafirði. Vegna tæknilegra örðugleika verður ekki fjarfundur á Ströndum, en áhugasömum Strandamönnum er bent á að setja sig í samband við Kristínu Sigurrós Einarsdóttur verkefnastjóra sem hefur umsjón með náminu.

Svæðisleiðsögn er ein undirgreina leiðsögunáms. Svæðisleiðsögunám á Vestfjörðum er haldið í samvinnu við Leiðsöguskóla Íslands, sem ber faglega ábyrgð á náminu, yfirfer umsóknir, sér um mat og gefur út prófskírteini. Aðrir samstarfsaðilar eru Ferðamálasamtök Vestfjarða og Vaxtarsamningur Vestfjarða. Markmið námsins er að nemendur öðlist almenna þekkingu á leiðsögn og sérþekkingu á Vestfjörðum. Námið fæst að hluta til metnið inn í almennt leiðsögunám ef nemandi fer í það síðar.

Í heild er námið 253 kennslustundir.  Það er kennt á þremur önnum, hefst á vorönn 2010 og lýkur á vorönn 2011. Þátttakendur koma saman á tveimur helgarlotum á fyrstu önn, þremur lotum á annarri og fjórum á þriðju önn. Loturnar eru haldnar á ýmsum stöðum á Vestfjörðum en þess á milli fer námið fram í dreifnámi.

Þátttakendur velja sér tungumál, annað hvort erlent mál eða íslensku. Umsækjendur þurfa að vera orðnir 21 árs við upphaf námsins. Þeir þurfa að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi, eða hafi starfsreynslu sem unnt er að meta.

Nemendur þurfa að standast munnlegt inntökupróf í því tungumáli sem þeir velja áður en námið hefst. Nemendur sem velja íslensku sem sitt kjörmál þurfa ekki að þreyja inntökupróf ef íslenska er þeirra móðurmál. Inntökuprófin fara fram á Ísafirði 2. og 4. febrúar, en þeir sem lengst eiga að fara geta tekið inntökupróf föstudaginn 26. febrúar, áður en helgarlotan á Ísafirði hefst.

Hver námslota stendur frá föstudegi til sunnudags. Kenndar verða 20 kennslustundir (15 klukkustundir) í hvert skipti. Gert er ráð fyrir að nemendur mæti á staðinn á föstudagskvöldi, kennt verður 9:00-20:00 á laugardegi og 9:00-16:00 á sunnudegi.

Fyrsta námslotan verður á Ísafirði síðustu helgina í febrúar, önnur lotan verður á Hólmavík helgina 10.-11. apríl. Í lok apríl verða próf og ritgerðaskil. Haustið 2010 verða námslotur á Reykhólum, í Vestur-Barðastrandarsýslu og á Núpi í Dýrafirði. Vorið 2011 verða loturnar í Bolungarvík, Dölum og Inndjúpi. Í fjórðu lotu vorið 2011 er vettvangsferð og lokapróf en hvar hún verður haldin liggur ekki fyrir.

Verð fyrir leiðsögunámið er 50.000 kr. fyrir hverja önn, samtals 150.000.  Innifalið í verði er kennsla og kennslugögn auk rútuferða á meðan á námslotu stendur. Gisting og fæði á námslotu er ekki innifalið í verði og heldur ekki ferð til og frá kennslustað. Fræðslumiðstöðin mun leita eftir hagstæðum tilboðum á hverjum stað fyrir sig.

Fræðslumiðstöðin er sveigjanleg í samningum þegar kemur að greiðslum og reynir að koma til móts við þátttakendur eins og hægt er. Best er að semja tímanlega. Umsjónarmaður námsins er Kristín Sigurrós Einarsdóttir, s. 451 0080 og 867 3164, netfang: stina@holmavik.is.