22/11/2024

Kynningarfundur um Óskaþrif í kvöld

Óskaþrif ehf, er nýtt einkahlutafélag á Ströndum sem stofnað var 1. febrúar síðastliðinn. Í fréttatilkynningu frá fyrirtæinu er starfsemi þess kynnt á þann veg að Óskaþrif bjóði upp á hreingerningarþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja ásamt tölvuþjónustu. Með starfsemi sinni er ætlunin að veita fyrirtækjum og einstaklingum fyrsta flokks, en jafnframt persónulega þjónustu. Fyrirtækið Óskaþrif er fjölskyldufyrirtæki í eigu tveggja fjölskyldna á Hólmavík, eigendur eru Bjarni Ómar Haraldsson, Alda Guðmundsdóttir, Sigurður Marinó Þorvaldsson og Sigurrós Guðbjörg Þórðardóttir.

Að sögn eigenda er ein helsta ástæðan fyrir stofnun Óskaþrifa er að fyrirtæki í verslun og þjónustu, stofnanir og félagasamtök vilja í auknum mæli tryggja sér áreiðanleika, gæði og aðgengilega þjónustu þegar kemur að hreingerningum og þrifaviðhaldi fasteigna. Eftirspurn eftir slíkri þjónustu hefur einnig verið vaxandi af hálfu einstaklinga og stefnir félagið á að styrkja starfsemi sína með því að bjóða upp á heimilisþrif. Heimilisþrif  eru víðtæk þjónusta þar sem mögulegt verður að semja við félagið um ýmsa sérþjónustu til að létta heimilisstörfin.

Reiknað er með því að fyrirtækið taki til starfa frá og með 1. mars nk. og að starfsemi þess verði kominn á fullan skrið á þessu ári. Í áætlunum félagsins er reiknað með því að tveir starfsmenn verði komnir í fullt starf nú á vormánuðum en eftir því sem verkefnastaða þróast vonast eigendur til þess að störfin verði allt að fjögur.

Fulltrúar fyrirtækisins hafa undanfarna daga verið að heimsækja fyrirtæki og stofnanir í Strandabyggð auk þess sem fyrirhugaður er kynningarfundur á þjónustu fyrirtækisins til einstaklinga þriðjudagskvöldið 26. febrúar í Grunnskólanum á Hólmavík kl. 20:30.

Einnig er öllum velkomið að leita upplýsinga um starfsemi og þjónustuframboð hjá eigendum Óskaþrifa eða framkvæmdastjóra félagsins í síma 821-8080 eða með tölvupósti á netfangið oskathrif@holmavik.is.