21/12/2024

Kynning á verkefni um örnefni og þjóðtrú

Matthias við annan af tveimur Selkollsteinum í landi Bassastaða – ljósm. Jón Jónsson/strandir.saudfjarsetur.is

Þýski fræðimaðurinn Matthias Egeler er nú gestafræðimaður hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og dvelur á Ströndum við rannsóknir í hálft ár. Matthias starfar við rannsóknir hjá Stofnun um skandinavísk fræði og trúarbrögð hjá Ludwig-Maximilians háskólanum í München í Þýskalandi. Hann mun halda opinn fyrirlestur á ensku um verkefnið og rannsóknir sínar á Galdrasýningu á Ströndum þriðjudaginn 18. júní kl. 18:00 og eru öll áhugasöm velkomin.

Á Ströndum vinnur Matthias að ritun bókar um samspil landslags, trúarbragða og hins yfirnáttúrulega. Viðfangsefni bókarinnar er óvenju ríkulegur menningararfur Strandamanna sem felst í örnefnum og sögum tengdum þeim. Margir staðir eru t.d. tengdir Guðmundi biskup góða og margvíslegum yfirnáttúrulegum verum og vættum. Út frá landslaginu sjálfu reynir Matthias að skilja betur hvernig hið yfirnáttúrulega og hið heilaga er tengt landinu.

Stefnan er að væntanleg bók muni kynna þennan magnaða efnivið betur, jafnt á sviði trúarbragðafræða, þjóðfræði og örnefnarannsókna.