05/11/2024

Kveðja til sjómanna

Aðsend grein: Karl V. Matthíasson
Á hverju ári höldum við sjómannadaginn hátíðlegan, þennan dag, sem á fastan sess í huga þjóðarinnar og svo mikinn, að hann hefur oft á tíðum sama yfirbragð og þjóðhátíðardagur okkar 17, júní, ekki síst á þeim stöðum sem hafa nær algerlega byggt afkomu sína á fiskveiðum og sjósókn. Íslendingar þakka þennan dag sjómönnum sínum fyrir störf þeirra á hafinu, en með því leggja þeir drýgstan skerf og grunn að velferð okkar. Á sjómannadeginum lútum við einnig höfði með virðingu og þökk til allra þeirra sem hafa farist á hafinu. Flest eigum við góðar minningar um stundir með horfnum vinum sem hafið tók. Já sjómannadagurinn er dagur virðingar og þakkar.

Sjómannadagurinn er einnig dagur uppörvunar og hvatningar um að horfa fram á veginn, læra af mistökum og gera betur, ekki hvað síst á sviði öryggis-  og björgunarmála. Það hefur marg oft sýnt sig og sannast að hvert skref sem tekið er í þeim efnum getur skipt sköpum og  bjargað einu  mannslífi, mörgum mannslífum.

Það hvílir mikil ábyrgð á útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum og öðrum í áhöfninni að vera á verði, ganga gætilega um og kynna sér öll þau atriði er lúta að öryggi skipsins. Starf  björgunarskóla sjómanna endurspeglar þessa hugsun.

Þegar hætta vofir yfir er mikilvægt að allir vinni saman.  Þetta þekkja þær þjóðir sem glímt hafa við sjóinn um aldir. Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur Íslands, Grænlands og Færeyja.  Það hefur verið mér mikil ánægja, sem formanni ráðsins að fylgja úr hlaði á Alþingi tillögum um uppbyggingu samstarfs á sviði björgunarmála,  sem m. a.  gera ráð fyrir  sameiginlegum björgunaræfingum.  Þar sem saman vinna bæði opinberir aðilar og áhugamannafélög landanna.

Eftir eina viku verður haldinn í Færeyjum yfirgripsmikill fundur Vestnorræna ráðsins um björgunarmál í Norður Atlandshafi. Í beinu framhaldi af þessum fundi verður svo fyrsta sameiginlega björgunaræfing landanna. Æfingin verður mjög viðamikil og verður vonandi upphaf aukins samstarfs á þessu sviði.

Miklar framfarir hafa orðið á sviði björgunarmála síðustu áratugina. En framfarirnar hafa verið víðar. Þar vil ég nefna þann málaflokk sem lýtur að lífeyris- og tryggingamálum sjómanna.  Enn lifir það fólk meðal okkar sem þekkti það, að fjölskylda sjómanns, sem féll í greipar Ægis, naut engra bóta utan þeirra samskota, sem kærleiksríkir nágrannar stóðu fyrir. Margt hefur breyst til góðs í þessum efnum, en þó sanna nýleg dæmi um þessi mál, að hér verðum við að taka okkur verulega á.

Ég minnist þeirra stunda þegar ég var háseti á tveimur vetrarvertíðum við Breiðafjörðinn, þá veiddum við í net. Allt kapp var lagt á að koma með sem mestan afla að landi, en þá voru líka dregnar tveggja nátta trossur en fiskurinn í þeim var ekki mikils metinn. Oft bar svo við að komið var með tugi tonna í land eftir daginn, þegar
vertíðin var á fullu, og allt iðaði af lífi hennar, ekki aðeins við bryggjuna, heldur í húsunum þar sem fiskurinn var flattur og unninn jafn vel langt fram á nætur við undirspil ljósavéla þeirra báta sem bundnir voru við bryggju.

Á þessum tíma var fiskinum landað úr sílóum beint á vörubílapallana en nú notum við plastkör og það liggur við að hver einasti fiskur fái sína persónulegu meðhöndlun. Betri meðferð á fiskinum hefur gefið okkur mun hærra verð en jafnframt stuðlað að aukinni virðingu sjómanna fyrir lífríki hafsins.

Og ekki veitir af hækkandi fiskverði, vegna aukins olíukostnaðar og sífellds niðurskurðar á veiðiheimildum. Niðurstöður hafrannsókna hafa leitt til þessa niðurskurðar. Hafrannsóknarstofnun sætir nú mikilli
gagnrýni fyrir vinnubrögð sín og í mínum huga er það engum vafa undirorpið að við verðum að auka hafrannsóknir sem og samstarf og samvinnu þeirra sem koma að þeim.  Hér langar mig til að geta þess að
Vestnorræna ráðið leggur til aukið rannsóknarsamstarf landanna þriggja og var þingsályktun um það samþykkt nú fyrir skömmu á Alþingi Íslendinga.

Fyrir tveimur sólarhringum sat ég fund þingmannanefndar Norðurheimsskautsráðsins. Þar komu m.a. fram fulltrúar frumbyggja norðursins og lýstu þeim hörmungum sem hafa riðið yfir ættmenn þeirra vegna ofurfyrirtækja er komust yfir auðlindirnar sem voru lifibrauð fólksins. Má þar helst nefna skógarhögg og fiskveiðar. Og við sáum í sjónvarpinu um daginn af svipuðu athæfi í Afríku, þegar demantar eða önnur verðmæti fundust þá var fólkinu sem fyrir bjó gert að fara annað svo þeir sem komust yfir lönd þeirra hefðu næði til athafna sinna. Þetta segi ég hér vegna þess að í landinu okkar ríkir ekki sátt um hvernig best sé að veita aðgang að fiskimiðunum okkar og öðrum auðlindum.

Í öllum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið hér á landi um þessi mál hefur komið í ljós að meirihluti þjóðarinnar er andsnúinn framkvæmd laga um stjórn fiskveiða. Þau voru sett til þess að efla fiskistofnana
við Ísland og nú getum við spurt okkur sjálf um árangurinn. Fiskveiðistjórnun okkar hefur beðið mikinn hnekki við úrskurð Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, en þar er bent á mikla mismunun og ranglæti sem í kerfinu felst. Tvö dómstig íslenska réttarfarsins hafa fengið ofanígjöf frá mannréttindanefnd öflugustu alþjóðasamtaka heimsins og við því verðum við að bregðast, ef við á annað borð viljum njóta virðingar og búa enn við þann fyrirmyndarsess sem við höfum haft á alþjóðavettvangi hingað til. Það er einlæg ósk mín að sú vinna sem framundan er í þessum málaflokki skili ásættanlegri niðurstöðu.

Almennt vil ég segja: Óttumst ekki að tjá skoðanir okkar,  hver sem við erum. Verum ekki hrædd hvert við annað. Hlustum á andstæð sjónarmið og leitumst ávalt við það að skapa samfélag þar sem sátt má ríkja fólki, atvinnuvegum, byggðum, þjóðlífinu öllu til góðs. Samstaða okkar og vinátta er það mikilvægasta og dýrmætasta sem eitt þjóðfélag getur átt. Það hefur sannast í sjávarplássum þegar gefið hefur á bátinn, illa árað eða sorg lagst yfir bæinn. Sjómannadagurinn er dagur virðingar og þakkar, en ekki síður til uppörvunar og hvatningar sem horfir jákvæðum augum til framtíðar okkar.

Kæru vinir Guð blessi sjómenn okkar og fjölskyldur þeirra jafnt í dag sem og aðra daga.

Karl V. Matthíasson,
þingismaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi