22/11/2024

Kvæði og lausavísur Björn Guðmundssonar frá Bæ

Regnbogi yfir SelströndVefnum strandir.saudfjarsetur.is barst á dögunum bréf frá Reyni Björnssyni sem er að reyna að hafa upp á handskrifaðri bók með kvæðum og lausavísum Björns Guðmundssonar frá Bæ á Selströnd. Um er að ræða kvæði sem ort voru í Svarfaðardal á árunum 1925-1935, en þá bjó Björn í Göngustaðakoti í Svarfaðardal með konu sinni Sigrúnu Egggertínu Björnsdóttir. Bréfið frá Reyni er birt hér að neðan, en sýnishorn af kveðskap Björns má finna í Strandapóstinum 1967, þar sem kvæðin Strandir og Fiskimaðurinn eru birt ásamt nokkrum vísum.

"Ágætu Strandamenn.

Nú um þessar mundir vinn ég að því ásamt fleirum, að koma kvæðum og lausavísum Björns Guðmundssonar frá Bæ í Steingrímsfirði á einn stað. Flest af því sem hann orti á Ströndum teljum við okkur hafa en þó er ekki loku fyrir það skotið að einhverjir gætu átt eða þekkt vísur sem við höfum ekki.

En ástæða þess að ég set þessa auglýsingu eru kvæðin sem hann orti í Svarfaðardal á árunum 1925-1935 þegar hann bjó þar, þau hafði hann skrifað í bók, trúlega eina af þessum gömlu innbundnu bókum með hörðum spjöldum og límbandi yfir kjölinn (fundargerðabók?)

Þegar hann flutti á Strandirnar lánaði hann bókina og trúlega hefur hún borist á milli manna því hún rataði aldrei til föðurhúsanna aftur.

Nú er það hugmynd okkar að ef verið er að skoða gamla bókakassa frá árunum 1935-1950 eða síðar að fólk muni eftir þessari auglýsingu og hafi hana í huga ef svo ótrúlega skyldi vilja til að bókin kæmi í leitirnar.

Með fyrirfram þakklæti og góðum kveðjum,

Reynir Björnsson
Garðhús 49
112 Reykjavík
netfang adda60@simnet.is
sími 5675731 / 8974199"