23/12/2024

Kristinn H. í þingnefndir á ný

Á þingflokksfundi Framsóknarflokksins í kvöld náðist sátt milli Kristins H. Gunnarssonar alþingismanns fyrir Norðurland vestra og þingflokksins. Kristinn mun því taka sæti í nefndum innan þingsins á ný, eftir að hafa verið útskúfaður frá eðlilegum þingstörfum fyrir flokkinn um mánaða bil. Kristinn mun taka sæti í sjávarútvegs- og umhverfisnefnd og verður varaformaður þeirra. Kristinn tekur auk þess sæti í EFTA þingmannanefndinni fyrir hönd flokksins. 

Kristni var vikið úr öllum ábyrgðarstöðum þingflokksins á síðasta ári eftir að hafa gagnrýnt stefnu forystu Framsóknarflokksins í veigamiklum málum. Að sögn hans hefur þingflokkurinn tekið mark á mótmælum sem komið hafa fram á kjördæmisþingi flokksins og frá framsóknarfélögum í Norðvesturkjördæmi, og ákveðið að taka hann í sátt.

Kristinn segist ánægður með þessa ákvörðun en að hún breyti engu um hugsanlegt framboð hans til varaformanns flokksins á komandi flokksþingi.