21/11/2024

Kristinn ekki í framboð fyrir Framsókn

Í yfirlýsingu frá Kristni H. Gunnarssyni alþingismanni kemur fram að hann hyggst ekki taka sæti á framboðslista Framsóknarflokksins fyrir næstu alþingiskosningar. Gengið verður frá listanum á kjördæmisþingi á Reykjum í Hrútafirði um helgina. Ljóst má vera af yfirlýsingunni að Kristinn er ekki hættur í pólitík, en hann segir að frekari ákvörðun um framtíðaráformin hafi enn ekki verið tekin. Helst hefur verið í umræðunni meðal þeirra sem rýna í pólitíkina að Kristinn fari í sérframboð eða gangi til liðs við Frjálslynda flokkinn. Yfirlýsingu Kristins má lesa hér að neðan:

Yfirlýsing Kristins H. Gunnarsson:

"Í dag hef ég tilkynnt formanni kjördæmasambands Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi þá ákvörðun mína að taka ekki sæti á framboðslista flokksins við næstu Alþingiskosningar.

Á kjörtímabilinu hef ég verið gagnrýninn á ýmislegt sem flokkurinn hefur staðið að og ég tel að hafi vikið um of frá stefnu flokksins og vilja kjósenda hans. Þar má helst nefna einkavæðingu ríkisfyrirtækja í fákeppnisumhverfi, vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu sem útfærsla skattalækkana á kjörtímabilinu hefur aukið og viðvarandi áhuga- og árangursleysi í byggðamálum á stórum landssvæðum eins og nýlegar upplýsingar staðfesta.

Niðurstaða prófkjörsins í nóvember sl. er að meirihluta til stuðningur við þá stefnu sem rekin hefur verið undanfarin ár og möguleikar mínir til þess að hafa áhrif á hana úr 3. sæti listans verða enn minni en verið hafa til þessa. Tel ég ekki rétt að taka sæti á framboðslistanum í ljósi þess að ég mun halda ótrauður áfram að tala fyrir þeim sjónarmiðum sem fram á síðustu ár hafa verið ofan á í Framsóknarflokknum og er ágætlega lýst með kjörorðinu manngildi ofar auðgildi.

Frekari ákvörðun hef ég ekki tekið en fljótlega munu framtíðaráform mín skýrast."