22/12/2024

Kraftar í Kögglum í Sævangi á sunnudag

Það verður nóg um að vera á Ströndum næstu helgi. Sunnudaginn 20. júlí kl. 14;00 hefst á Sævangsvelli kraftakeppni Strandamanna, Kraftar í Kögglum, en þar verður keppt í fjórum greinum; Brúsahlaupi, Fuglahræðukasti, Sævangslyftu og Dráttarvéladrætti. Að sögn Svanhildar Jónsdóttur á Hólmavík, skipuleggjanda kraftakeppninnar, er fuglahræðukastið eina nýja greinin á dagskrá en hinar hafa orðið rótgrónar á fyrri kraftakeppnum Sauðfjársetursins. Svanhildur segir greinina vera nokkurs konar svar við fuglahræðukeppni Bryggjuhátíðar á Drangsnesi – pirraðir keppendur sem ekki hafi náð árangri geti mætt í Sævang og kastað Viðari, sem er vesæl fuglahræða sérsmíðuð fyrir keppnina.

Auk kraftakeppninnar verður gómsætt kaffihlaðborð a la Brynja og Sigga í kaffistofu Sauðfjársetursins frá kl. 14:00. Skráning í keppnina fer fram á staðnum, en konur og karlar á Ströndum eru eindregið hvött til að mæta og spreyta sig í skemmtilegri keppni sem reynir ekki minna á hláturtaugarnar en vöðvana. Þess má að lokum geta að Sverrir Bassi verður ekki á staðnum frekar en í fyrra.