20/04/2024

Kotbýli kuklarans að taka á sig mynd

Kotbýli kuklarans á Kúku í Bjarnarfirði sem er annar áfangi Galdrasýningar á Ströndum er óðum að taka á sig endanlega mynd þessa dagana en sýningin og svæðið verður opnað laugardaginn 23. júlí næstkomandi. Undanfarna daga hafa miklar breytingar átt sér stað í og við kotbýlið sem verður ímyndaður bústaður galdramanns á 17. öld, en margt óvenjulegt í sýningarhaldi á Íslandi mun líta þar dagsins ljós, jafnt innandyra sem utan. Næstu daga verður unnið í því að finna hverskyns hluti sem þarf á sýninguna, s.s. húðir hverskonar, skinn, gærur, hrossatögl, orf, ljái, hrífur, rekur, sáir og hverskyns verkfæri. Ef einhver lumar á einhverju af þesskonar hlutum, eða öðrum þeim hlutum sem sá heldur að geti komið að gagni þá tekur Galdrasýning á Ströndum þakksamlega við þeim og gætir þeirra.
580-kotbylid_uti