22/11/2024

Kosning í fullum gangi

Kosning á Strandamanni ársins 2005 er í fullum gangi hér á strandir.saudfjarsetur.is. Nú þegar hafa um eitt hundrað atkvæði borist í kosninguna og fjölmargir Strandamenn og konur fengið atkvæði fyrir ýmis afrek, stór, smá og skemmtileg. Kosið verður í tveimur umferðum. Í fyrri umferðinni sem nú er í gangi fara fram tilnefningar og í þeirri seinni verður síðan kosið á milli þeirra þriggja sem fá flestar tilnefningar. Frestur til að skila inn tilnefningu í fyrri umferð rennur út kl. 12:00 sunnudaginn 22. janúar. Það er ekki flókið mál að skila inn atkvæði, einungis þarf að fylla út formið sem er að finna undir þessum tengli og neðst í tenglastikunni hér til vinstri. Þar þarf að tilgreina hver fær atkvæðið og koma þarf fram hver sendandinn er til að það sé tekið gilt.

Þetta er í annað skipti sem vefurinn strandir.saudfjarsetur.is stendur fyrir kosningu sem þessari, en síðast fékk Sverrir Guðbrandsson á Hólmavík flest atkvæði eftir að hafa gefið út stórskemmtilegar æviminningar sínar undir heitinu Ekkert að frétta.