23/12/2024

Kosið um Strandamann ársins 2012

strandamennarsins
Strandamenn taka sér að venju allan janúarmánuð í að hugsa hlýlega til samferðamanna sinna, rifja upp hvað fólk hefur áorkað og afrekað á liðnu ári og hverjir hafa staðið sig vel í daglegu amstri. Nú er komið að síðari umferð í kosningu á Strandamanni ársins 2012 og er frestur til að taka þátt út janúarmánuð, fram á miðnætti fimmtudaginn 31. janúar. Í síðari umferð komast að þessu sinni fjórir aðilar sem flestar tilnefningar fengu í fyrri umferð en þeir eru: Björn Kristjánsson á Drangsnesi, Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli, Viðar Guðmundsson í Miðhúsum og GóGó píurnar á Hólmavík. Af tilnefningum í fyrri umferð er ljóst að menning og mannlíf er Strandamönnum mjög ofarlega í huga í upphafi nýs árs. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur alla til að taka þátt í þessum skemmtilega leik og kjósa Strandamann ársins 2012.

Björn Kristjánsson
Björn sem hefur gert garðinn frægan undir listamannsnafninu Borkó hefur frá því í haust starfað sem kennari við Grunnskólann á Drangsnesi, „verið frábær með krökkunum“ og unnið „makalaust gott starf“. Í umsögnum um Björn kemur fram að hann hafi „haft góð áhrif á Drangsnesi“ á stuttum tíma og náð að „lyfta mannlífinu á staðnum í hæstu hæðir“ með „stórbrotnum uppátækjum“. Björn gaf út nýjan „frábæran disk“ með tónlist sinni á árinu 2012 sem „fer í sögubækurnar er fram líða stundir“.
Björn hefur „staðið fyrir tónleikaröðinni Mölinni á Drangnesi“ og einnig stóð hann fyrir „stórskemmtilegu tónlistarverkefni með krökkunum á Drangsnesi í samvinnu við Vodafone“. Sagt er að auglýsingin sem krakkarnir gerðu fyrir undir hans stjórn fyrir jólin hafi „komið Drangsnesi á kortið“. Í umsögnum er Björn ennfremur sagður „frábær karakter“, að hann hafi „stóraukið tónlistaráhuga barnanna“ og að það sé „magnað fyrir lítið samfélag að fá svona magnaðan leiðbeinenda sem ekki bara getur náð til æskunnar, heldur gerir það“.
Ester Sigfúsdóttir
Ester býr á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð og rekur þar ferðaþjónustu og gistihús. Hún er einnig framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum frá ársbyrjun 2012, en áður starfaði hún lengi á Héraðsbókasafninu á Hólmavík. Frammistaðan á öllum þessum stöðum er sögð „afar góð“ og „til hreinnar fyrirmyndar“.
Ester fær í umsögnum „mikið lof sem góður gestgjafi“, hún hefur „staðið sig með miklum sóma“, er „alltaf jákvæð, glöð og alúðleg“, „frábær fjölskyldumanneskja“, „virk í félagslífi“ og heldur „æðislegar skemmtanir“. Hún er „mjög framtakssöm í félags- og menningarmálum“ og undir hennar stjórn hefur Sauðfjársetrið „staðið fyrir mörgum nýjum og skemmtilegum skemmtunum, s.s. sviðaveislu og heimabingói“ og „allskonar skemmtilegum atburðum nánast allt árið“. Starfsemi Sauðfjársetursins „hefur blómstrað“ undir hennar stjórn og það er „sérstaklega mikilvægur hlekkur í menningarlífi svæðisins“.
 
Viðar Guðmundsson
Viðar er tónlistarmaður og bóndi í Miðhúsum í Kollafirði, „sómapiltur“, „snillingur, dugnaðarforkur og ágætur bóndi“. Í umsögnum um hann segir að Viðar hafi marga kosti, hann sé „vítamínsprauta fyrir kórastarf á svæðinu“, „menningarpostuli og gleðigjafi“ og „öllum til fyrirmyndar“. Á árinu 2012 stóð hann t.d. fyrir „söfnun fyrir útsendingarbúnaði fyrir kirkjuna á Hólmavík til að hægt væri að horfa á viðburði sem þar færu fram á sjúkrahúsinu“. Ágóði af hans eigin afmælistónleikum rann til þessa málefnis. Þá stóð hann fyrir tónleikum tileinkuðum ástinni á Hamingjudögum og fleiri viðburðum.
Viðar er „jákvæður og kraftmikill“, hefur „trú á framtíðinni“ og „alltaf tíma til að gera skemmtilega hluti“. Auk þess hefur Viðar „þau áhrif á aðra að þá langar líka til að leggja góðum málefnum lið“. Viðar er ennfremur kórstjóri í Borgarfirði og á Hólmavík og „frábær organisti“, auk þess sem hann situr nú í sveitarstjórn Strandabyggðar.
GóGó píurnar
GóGó píurnar er unglingaband sem „sló í gegn“ og „blómstraði“ á árinu 2012, en þá gerði sveitin „marga góða hluti“ og „fjölmarga Strandamenn stolta“. Sveitin var stofnuð í félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík og hana skipa Brynja Karen Daníelsdóttir, Gunnur Arndís Halldórsdóttir, Margrét Vera Mánadóttir, Sara Jóhannsdóttir sem sungu og Fannar Freyr Snorrason sem spilaði undir.
Í umsögnum kemur fram að sveitin staðið sig „rosalega vel í öllu sem þau gerðu“, „sigraði Vestfjarða-Samfés í Súðavík og „varð í 3. sæti í Samfés á landsvísu“ þar sem sveitin „stóð sig stórkostlega“. Unga fólkið var „Ströndum til sóma“, enda hefur „svona góður árangur ekki sést áður“. GóGó píurnar komu svo fram á Aldrei fór ég Suður og „stóðu sig frábærlega“ og „voru æðislegar“, enda eru þær „yndislegar í alla staði“ og hafa „komið Hólmavík á kortið með söng sínum“. Sveitin „kom síðan fram sem Grýlurnar í leiksýningunni Með allt á hreinu og spiluðu líka á Hamingjudögum“. GóGó píurnar eru „rosa rosa flottar“, „ferlega töff“ og „miklir tónlistarsnillingar“, auk þess að vera „flott fyrirmynd“ og „flottur og heilbrigður hópur sem hefur tekið virkan þátt í félagslífinu í samfélaginu“ og haft „alveg rosalega gaman af því“.