Nú er heldur betur farið að styttast í Karaoke-keppni vinnustaða á Ströndum, en hún fer fram í Bragganum á Hólmavík laugardaginn 13. október og hefst kl. 20:30. Þar munu sjö eldhressir keppendur frá jafnmörgum vinnustöðum flytja tvö lög hver, en æfingar hafa staðið yfir frá því í byrjun vikunnar. Á laugardaginn verður einnig haldið frábært steikarhlaðborð á Café Riis og eftir keppni verður haldinn stórdansleikur með hljómsveitinni Kokkteil í Bragganum. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is kíkti við á æfingu í Bragganum í kvöld, en þar voru keppendur í góðu stuði og undu sér vel við pizzaát, gos- og bjórþamb milli þess sem þeir sungu lögin sem munu fá að óma í keppninni á laugardaginn.
Lagalistinn verður birtur hér á vefnum síðar í dag.
Siggi Atla þenur raddböndin fyrir Strandagaldur, en Siggi var valinn skemmtilegasti keppandinn í keppninni í fyrra.
Arnar Jónsson keppir fyrir Sauðfjársetur á Ströndum.
Salbjörg Engilbertsdóttir keppir fyrir Skrifstofu Strandabyggðar og Hlíf Hrólfsdóttir fyrir Leikskólann Lækjarbrekku. Þarna veitir Hlíf Salbjörgu andlegan stuðning við erfiða nótu.
Jón Gústi Jónsson lifir sig inn í sönginn og gleymir um stund hnéaðgerðinni sem hann fer í á föstudagsmorguninn. Jón Gústi keppir fyrir Hólmadrang.
Því miður náðist engin mynd af Halldóri Jónssyni að syngja fyrir Vegagerðina, en það gerði hann svo sannarlega. Nánustu aðstandendur, sem og Dóri sjálfur, eru beðnir velvirðingar á þessari myndbirtingu. Það skal tekið fram að myndin er sviðsett. 🙂
Notalega stemmning í Bragganum – nú vantar bara gestina sem væntanlega fjölmenna á laugardaginn.
Ásdís Jónsdóttir keppir fyrir Ferðaþjónustuna Kirkjuból og er aldursforseti keppninnar að þessu sinni, þó sennilega sé hún yngst í anda.
Ljósm. Arnar S. Jónsson