23/12/2024

Kennarar unnu Spurningakeppnina

Lokakvöld Spurningakeppni Strandamanna fór fram í Félagsheimilinu á Hólmavík á sunnudagskvöldið. Óhætt er að fullyrða að spurningakeppnin hefur aldrei verið jafn spennandi og þetta kvöld, en tvöfaldan bráðabana þurfti til að útkljá úrslit í lokaviðureigninni milli kennaranna og Ungmennafélagsins Neista. Það voru að lokum lið kennara við Grunnskólann á Hólmavík sem fór með sigur af hólmi, í þriðja skiptið í fimm ára sögu keppninnar. Heilmikil stemmning var í Félagsheimilinu og allt á suðupunkti frá upphafi til enda. Þeir Ingimundur Pálsson og Árni Þór Baldursson smelltu af fjölmörgum myndum sem hægt er að skoða hér fyrir neðan ásamt umsögnum Arnars S. Jónsonar spyrils um einstakar keppnir á kvöldinu.

1

bottom

Kennarar við Grunnskólann Hólmavík – Skrifstofa Strandabyggðar = 17-15

„Hér mættust tvö sterk og jöfn lið. Eftir hraðaspurningarnar og Þríhöfðann, sem snerist um að þekkja þrjá alþingismenn sameinaða í einu andliti, var staðan 11-9 kennurum í vil. Skrifstofan, sem tefldi fram nýliðanum Viktoríu Rán Ólafsdóttur, jafnaði metin strax í tveimur fyrstu bjölluspurningunum og síðan skiptust liðin á að svara rétt þar til í lok bjölluspurninganna, en þá náðu kennararnir ágætis kafla þar sem þeir svöruðu þremur spurningum í röð. Staðan eftir bjölluspurningarnar var 16-14 fyrir kennara, en í fyrri vísbendingaspurningunni minnkaði skrifstofan muninn í eitt stig með því að þekkja matvöruna Cheerios. Halla Jónsdóttir, kona Fjalla-Eyvindar, vafðist hins vegar illilega fyrir liðunum í síðustu vísbendingaspurningu, en að lokinni harðri baráttu um bjölluna kræktu kennarar í síðasta stigið sem í boði var. Lokastaðan 17-15, en í raun hefði Skrifstofan alveg eins getað unnið þessa keppni, eða a.m.k. náð jafntefli hefðu þær náð bjöllunni í síðustu spurningu. Þær voru hins vegar aðeins lakari í hraðaspurningunum og þar réðust úrslitin að mínu mati.“

saudfjarsetur/580-spurn07-1.jpg

Ungmennafélagið Neisti – Hólmadrangur = 17-15

Hér mætti spútniklið keppninnar í ár, nýliðarnir í Neista, meisturunum í Hólmadrangi. Hólmadrangur sýndi mikinn styrk í átta liða úrslitum og þar hefði ekkert lið unnið þá, en það kom fljótlega í ljós að Ungmennafélagið var staðráðið í að hleypa þeim ekki í úrslitakeppnina. Hnífjafnt var á öllum tölum, 11-10 fyrir Hólmadrang eftir hraðaspurningar og þríþraut og 14-14 eftir bjölluspurningar þar sem lið Hólmadrangs klofnaði í þrennt við að leita að réttu svari við spurningu um búrhval. Uppátækið vakti mikla kátínu áhorfenda sem og liðsmannanna sjálfra. Í fyrri vísbendingaspurningunni giskaði Aðalbjörg Óskarsdóttir á að hljómsveitin sem spurt væri um væri 200.000 naglbítar og hitti þar naglann fast á höfuðið og þrjú stig komu í hús til Umf. Neista. Hólmadrangsmenn náðu síðan ekki að svara seinni vísbendingaspurningunni fyrr en í síðustu vísbendingu og Neisti því kominn í úrslit. Hólmadrangsmenn hefðu með smá heppni getað komist í úrslit, en að þessu sinni var mótherjinn bara of sterkur. Þar ber sérstaklega að nefna Aðalbjörgu Óskarsdóttir sem var í banastuði allt kvöldið og klárlega sá keppandi sem vakti mesta athygli spurningaspekinginna í salnum.“

saudfjarsetur/580-spurn07-2.jpg

Úrslit: Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík – Ungmennafélagið Neisti = 16-15 (eftir bráðabana)

Í raun er fátt hægt að segja um þessa keppni annað en að hún var í einu orði sagt ein sú allra besta og mest spennandi frá upphafi keppninnar. Ungmennafélagið Neisti náði ekki flugi í hraðaspurningunum og staðan eftir þær og þríhöfðann var 12-9 kennurum í vil. Sennilega hafa einhverjir talið að eftir þetta yrði leiðin greið fyrir kennarana að sigri, enda er liðið óhemju fljótt á bjölluna. Neisti fylgdi þó liðinu eftir eins og skugginn og eftir bjölluspurningar var enn þriggja stiga munur, 15-12. Í fyrri vísbendingaspurningunni náði Neisti einu stigi og staðan 15-13 kennurum í vil. Í síðustu spurningu keppninnar var spurt um ártalið 1952. Liðin náðu ekki að svara í fyrstu vísbendingu en í annarri vísbendingunni komu liðsmenn Neista með hárrétt svar. Staðan var því 15-15 og grípa þurfti til bráðabana til að finna sigurvegara. Hvorugt liðið gat svarað fyrstu spurningunni sem snérist um eitt af boðorðunum 10, en bráðabanaspurning nr. tvö um frumefnið brennistein small fullkomlega að áhugasviði eins kennarans sem var ekki lengi að slá á bjölluna og tryggja þeim sigur.

Kennararnir náðu því að vinna keppnina í þriðja sinn, en aldrei hefur munað jafn litlu á liðunum í úrslitunum eins og í þetta skipti. Í raun sannaðist þarna að það þarf að hafa góðan skammt af heppni til að vinna keppni eins og þessa og í þetta skiptið voru það kennararnir sem fengu spurningu sem hentaði þeim vel. Þeir eru afar vel að sigrinum komnir, en að sama skapi má segja að það hefði Ungmennafélagið Neisti verið líka. Sigurinn þarf þó alltaf að detta öðru hvoru megin og í þetta skipti fer Viskubikarinn ekki út á Drangsnes. Það er þó greinilegt á öllu að það á eftir að gerast eitt árið.“

saudfjarsetur/580-spurn07-4.jpg

saudfjarsetur/580-spurn07-5.jpg

saudfjarsetur/580-spurn07-6.jpg

saudfjarsetur/580-spurn07-8.jpg

saudfjarsetur/580-spurn07-10.jpg

saudfjarsetur/580-spurn07-11.jpg

Ljósm. Árni Þór Baldursson og Ingimundur Pálsson.