Í gær var útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði á Ströndum lokað. Þetta kemur fram á fréttavefnum mbl.is. Því er engin matvöruverslun lengur starfandi í Árneshreppi. Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps á hins vegar ekki von á því að sú staða vari lengi og segir að verið sé að vinna í að fá rekstraraðila. Árneshreppur á húsnæðið sem verslunin er í og það og íbúð í sama húsi stendur þeim til boða þeim sem rekur verslunina. Kaupfélag Steingrímsfjarðar hefur rekið verslunina frá 1992, en þá varð Kaupfélag Strandamanna Norðurfirði gjaldþrota. Nú telur Kaupfélag Steingrímsfjarðar ekki lengur grundvöll fyrir rekstri verslunarinnar.