Áður auglýst fyrirtækjakeppni í karókí sem til stóð að halda þrjú kvöld í vetur með útsláttarfyrirkomulagi á Café Riis er í uppnámi sökum einhverrar óskiljanlegrar hæversku sem virðist hrjá Strandamenn um þessar mundir. Aðeins fjórir aðilar hafa skráð sig til keppni, skrifstofa Hólmavíkurhrepps, kennarar Hólmavíkurskóla, Strandagaldur og Hólmadrangur. Stefnt var að fyrsta kvöldið yrði næsta föstudagskvöld en eins og staðan er þá er eins víst að ekkert verði af þessari stórkostlegu skemmtun þar sem mergjaðir og á stundum afar mislagðir stórsöngvarar munu stíga á pall og þenja raddböndin en að sjálfsögðu hver með sínu nefi.
Það hafa meira að segja borist fregnir af því að einhverjir söngvararanna séu þegar byrjaðir að sauma sér búninga, jafnvel þó þeir kunni ekki að sauma og því miður útlit fyrir að það sé til einskis en þörf er á sæmilegri þátttöku svo keppnin geti átt sér stað.
strandir.saudfjarsetur.is vill hvetja alla að drífa sig nú og skrá sig eða sína til þátttöku og hafa ekki áhyggjur neinu. Það verður engum strítt – einungis fagnað. Hægt er að skrá þátttöku í síma 451 3567 eða á þessari slóð á Strandamannaspjallinu. Það er ekkert því til fyrirstöðu að skrá fleiri en eitt lið til keppni frá hverju fyrirtæki, ef upp kemur ágreiningur um hvern skuli senda.