22/12/2024

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps á Hólmavík

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps heldur tónleika í Hólmavíkurkirkju laugardaginn 31. mars næstkomandi og hefjast þeir kl. 21.00. Kórinn hefur starfað allt frá árinu 1925 og árið 1985 gaf hann út hljómplötuna Tónar í tómstundum og árið 1997 gaf kórinn út geisladiskinn Norðlenskar nætur. Starfandi félagar eru 35 talsins. Tóndæmi frá kórnum má finna undir þessum tengli, en rétt er að vara þá sem eru með lélega nettengingu við því að lagið er um það bil 3 mb.

Í riti kórsins, Tónar í tómstundum, segir svo um stofnun kórsins að nótt eina við Ströngukvísl á Eyvindarstaðarheiði haustið 1924 hafi verið fastmælum bundið að stofna karlakór. Það gekk eftir og kórinn söng í fyrsta sinn á sumardaginn fyrsta árið 1925 og hefur hann starfað óslitið síðan. Lengstum bjuggu söngmenn kórsins í Bólstaðarhlíðarhreppi, en með batnandi samgöngum stækkaði félagssvæðið og nú koma söngmenn víða að úr Austur-Húnavatnssýslu.

Kórstjórar sem hafa stjórnað kórnum frá stofnun hans eru eftirtaldir: Gísli Jónsson, Þorsteinn Jónsson, Gísli Pálmason, Jónas Tryggvason, Jón Tryggvason, Gestur Guðmundsson og núverandi stjórnandi kórsins er Sveinn Árnason, og hefur hann stjórnað honum frá 1994. Margir þessara manna voru jafnframt mikilvirkir lagahöfundar og býr kórinn að þeim arfi.