30/10/2024

Kaldrananes-hreppur leggur fram aðgerðaáætlun

Í frétt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að Kaldrananeshreppur á Ströndum hefur sett saman aðgerðaáætlun til að bregðast við breytingum á umhverfi í efnahags-, atvinnu- og fjármálum. Þar kemur fram að alvarleg staða á alþjóðlegum mörkuðum, fyrirsjáanlega minnkandi tekjur hreppsins vegna útsvars og minnkandi tekna frá Jöfnunarsjóði sem lækka vegna minni tekna ríkissjóðs, aukinn rekstrarkostnaður og fleiri vísbendingar um þrengingar kalli á aðgerðaáætlun Kaldrananeshrepps.

Í fréttinni segir ennfremur:

"Sveitarstjórn Kaldranneshrepps tekur undir yfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 10. október sl. um að verja grunnþjónustuna. Einnig er tekið undir mikilvægi þess að endurskoða fjárhagsáætlanir og forgangsraða upp á nýtt.

Meginmarkmiðið er að ástunda ábyrga fjármálastjórn, tryggja grunnþjónustu og stöðugleika í rekstri.
Sveitarstjórn skal fylgjast með framgangi þessarar aðgerðaáætlunar, fylgjast reglulega með málum, hafa samráð og samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga, önnur sveitarfélög og ríkisvaldið til að tryggja hagsmuni íbúa Kaldrananeshrepps í hvívetna við þessar sérstöku og erfiðu aðstæður. Sveitarstjórn mun fylgjast grannt með atvinnumálum í sveitarfélaginu og leitast við að tryggja gott atvinnustig í Kaldrananeshreppi.

Þrengri fjárhagsstöðu verður að svo stöddu ekki mætt með hækkunum á gjaldskrám fyrir grunnþjónustu eða með skerðingu á slíkri þjónustu. Gæta skal þess að hækkanir á gjaldskrá þeirrar þjónustu sem ekki telst til grunnþjónustu eins og fyrir Hitaveitu Drangsness, Drangsneshafnar og sundlaugar verði eins litlar og mögulegt kann verða.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 mun taka mið af versnandi fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og þess gætt að ekki þurfi að taka lán vegna nauðsynlegra framkvæmda eða til rekstrar grunnþjónustu sveitarfélagsins.
Engin breyting verður á álagningarhlutfalli útsvars, nú 13,03%, né fasteignagjalda. Þá verður afsláttur á fasteignagjöldum óbreyttur. Gert er ráð fyrir 15 – 20% lækkun tekna frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og að útsvarstekjur lækki ekki eða í mesta lagi um 3-5%. Ekki er gert ráð fyrir hækkun tekna af fasteignum.
Launaliðir hækka verulega frá síðasta ári vegna kjarsamninga og eiga enn eftir að hækka um 5 – 10 % vegna væntanlegra kjarasamninga. Engin áform eru uppi um uppsagnir starfsfólks.

Helstu framkvæmdir næsta árs verða: Framkvæmdir sem voru á fjárhagsáætlun þessa árs en ekki komust í verk vegna ýmissa ástæðna þ.e slitlagslögn á Grundargötu og uppbygging Skarðsréttar. Þá eru það framkvæmdir við Drangsnesbryggju þ.e grjótvörn og viðgerð á þekju en þær framkvæmdir eru á samgönguáætlun 2009 og er grjótvörnin 90% styrkhæf en þekjan að 75%. Sveitarsjóður hefur fjármagn til að mæta kostnaði við þessar framkvæmdir.

Þrátt fyrir erfiða efnahagsstöðu á Íslandi og fyrirsjáanlega tekjurýrnun hjá sveitarfélaginu telur sveitarstjórn Kaldrananeshrepps að ekki sé ástæða til örvæntingar. Sveitarsjóður stendur vel og hefur engin erlend lán. Með samvinnu íbúa og sveitarstjórnar munum við vinna okkur út úr þessum tímabundnu erfiðleikum sem nú hafa riðið yfir landið."