22/12/2024

Kaffihús á Borðeyri

Sigrún Waage frá Borðeyri er í Perlunni, en hún stendur ásamt manni sínum að uppbyggingu ferðaþjónustu á Borðeyri. Þau reka verslunina Lækjargarð á Borðeyri sem keypti eignir Kaupfélagsins fyrir rúmu ári og hafa einnig umsjón með tjaldsvæðinu þar og hyggja nú á frekari uppbyggingu. "Ætlunin er að opna kaffihús á Borðeyri síðustu helgina í maí í sama húsi og verslunin er, verðum með ekta sveitakaffi. Þarna verður líka ljósmynda- og málverkasýning í allt sumar."

Verslunin Lækjargarður er opin mánudaga til föstudaga frá 10-18 og 13-18 á laugardögum. Þar fást allar helstu nauðsynjar, bæði fyrir heimamenn og ferðafólk, og bensínstöð er opin á sama tíma og verslunin.

Borðeyri við Hrútafjörð á Ströndum er næst höfuðborginni af öllum stöðum á Vestfjörðum og Ströndum, innan við tveggja tíma akstur er þangað. Borðeyri er rólegur og fallegur staður með iðandi fuglalífi og spennandi náttúru – tilvalinn staður til að hafa næturdvöl á í upphafi ferðar um Vestfirði.

Ljósm. Jón Jónsson