22/12/2024

Jón Ólafsson á Hólmavík

Miðvikudagskvöldið 22. júní n.k. verður stórviðburður á Hólmavík en þá heimsækir Jón Ólafsson tónlistarmaður þorpið og heldur tónleika í Hólmavíkurkirkju klukkan 21:00. Tónleikana má líta á sem upphitun fyrir Hamingjudagana 30. júní – 3. júlí, enda stóð upphaflega til að Jón kæmi fram í dagskrá Hamingjudaganna. Þess í stað ætlar Jón að halda tónleika eins og áður sagði þann 22. júní.

Jón hefur verið atvinnumaður í tónlist frá árinu 1986 en jafnframt því fengist við fjölmiðlun. Þáttur Jóns Af fingrum fram, hefur verið á dagskrá Ríkissjónvarpsins undanfarin ár og hefur hlotið mikið lof. Jón tók einnig virkan þátt í Idolkeppninni í vetur og í fyrravetur, þar sem hann sá m.a. um undirleik keppenda í nokkrum þáttum.
Jón hefur samið tónlist frá unga aldri og hafa dægurlög hans oft náð að fanga athygli íslenskra tónlistarunnenda. Lög eins og Alelda, Horfðu til himins, Flugvélar, Þrisvar í viku, Móðurást, Líf, Í brekkunni (Þjóðhátíðarlagið 1989), Passíusálmur no. 51, Við lifum aðeins einu sinni, Sunnudagsmorgunn o.fl. hafa náð miklum vinsældum og eru til vitnis um frábæran lagahöfund. Jón er stofnandi nokkurra vel þekktra hljómsveita sem flestir ættu að kannast við. Má þar nefna Sálina hans Jóns míns, Possibillies og Bítlavinafélagið sem er Strandamönnum að góðu kunnugt frá sveitaböllum í Sævangi og Skeljavíkurhátíðum á 9. áratugnum. Frá árinu 1990 hefur Jón verið meðlimur í hinni rómuðu hljómsveit Nýdönsk.
Stutt er síðan Jón sendi frá sér sinn fyrsta sólógeisladisk og hlaut hann góðar viðtökur. Síðast en ekki síst er leikni Jóns á píanóið margrómuð og því verður gaman fyrir alla tónlistarunnendur á Ströndum og nágrenni, unga sem aldna, að fylgjast með Jóni kitla flygilinn í Hólmavíkurkirkju. Hólmvíkingar og aðrir Strandamenn eru hvattir til að láta þennan skemmtilega tónlistarviðburð ekki framhjá sér fara.