22/12/2024

Jón Jónsson fékk Landstólpann

Á ársfundi Byggðastofnunar á Sauðárkróki í gær var í fyrsta sinn afhent samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar – Landstólpinn, en ætlunin er að sú viðurkenning verði afhent árlega í framtíðinni. Óskað var eftir tilnefningum um einstakling, fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag, síðastliðið vor. Sérstök dómnefnd fór síðan yfir tilnefningar sem bárust og ákvað að veita Jóni Jónssyni á Kirkjubóli, menningarfulltrúa Vestfjarða, viðurkenninguna að þessu sinni.   

Í rökstuðningi kom fram að um nokkurs konar bjartsýnisverðlaun væri að ræða og að Jón hafi með störfum sínum vakið jákvæða athygli á sinni heimabyggð og verið ötull talsmaður ferðaþjónustu og menningar á Vestfjörðum. Þá sé hann virkur í félagsstarfi og menningarlífi og að auki frumkvöðull í uppbyggingu ferðaþjónustu, menningarstofnana og fræðastarfs á svæðinu.

Jón Jónsson hefur frá hausti 2007 starfað fyrir Menningarráð Vestfjarða sem menningarfulltrúi. Hann situr jafnframt í sveitarstjórn Strandabyggðar frá 2010 og í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Jón stofnaði héraðsfréttavefinn strandir.saudfjarsetur.is árið 2004 og hefur verið ritstjóri hans síðan þá.

Í reglum um Landstólpan kemur fram að viðurkenningin skal veitt einhverjum þeim sem hefur vakið jákvæða athygli á landsbyggðinni með verkefni, starfsemi, umfjöllun á opinberum vettvangi eða með öðru móti. Viðkomandi gæti bæði hafa vakið athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags.

Nafn viðurkenningarinnar kemur úr kvæði eftir Jónas Hallgrímsson.

Jón Jónsson á Kirkjubóli með viðurkenninguna – ljósm. Dagrún Ósk.
Efri myndin er fengin að láni af vef Byggðastofnunar. Á henni eru auk Jóns, Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar og Anna Kristín Gunnarsdóttir fráfarandi formaður stjórnar.