14/06/2024

Jólahugur í Strandamönnum

JólamarkaðurFréttaritari strandir.saudfjarsetur.is leit við á jólamarkaði handverksfélagsins Strandakúnstar sem er í gömlu kaupfélagsversluninni við Höfðagötu á Hólmavík. Þar var mikið líf og fjör og jólaandinn sveif þar yfir.

Nokkrir kúnnar sátu í litla kaffihúsinu sem er þar og ræddu landsins gagn og nauðsynjar yfir kaffibolla og piparkökum. Aðrir gengu um hugsandi, skoðuðu vöruúrvalið og versluðu í jólapakka eða keyptu jólaskraut. Það var áberandi hvað börnin voru ánægð yfir því að jólin eru rétt handan við hornið og þau drukku í sig jólastemninguna sem Strandakúnst hefur skapað á jólamarkaðnum.

Strandakúnst hefur mörg undanfarin ár staðið fyrir jólamarkaði en hann hefur þó aldrei verið á jafn skemmtilegum stað eins og nú, í hjarta kauptúnsins. Um síðustu jól var jólamarkaðurinn í húsi Sauðfjársetursins úti á Skeiði og mörg ár þar á undan í anddyri félagsheimilisins á Hólmavík.

Að sögn Ásdísar Jónsdóttur sem sér um afgreiðsluna þá skemmtir hún sér konunglega upp á hvern dag og hún segir að salan hafi farið vel af stað. Framundan sé þó mesti annatíminn en jólamarkaður Strandakúnstar er opinn alla daga frá kl. 14:00-18:00 fram að jólum.