Þegar sveitarfélög á landsbyggðinni hafa upp til hópa átt í vök að verjast með eðlilega framþróun, t.d. er varðar íbúafjölda, menntamál og alla almenna þjónustu, virðist Bæjarhreppur í Strandasýslu hafa töluverða sérstöðu.
Um áratuga skeið fækkaði íbúum í Bæjarhreppi hægt og þétt eins og í mörgum öðrum sveitarfélögum á landsbyggðinni. Þegar botninum var náð 1999 voru einungis 93 íbúar skráðir í hreppnum. Að sögn Ragnars Pálmasonar oddvita hreppsins fór íbúatalan að síga upp á við, upp úr því, og íbúum hefur verið að fjölga hægt og sígandi síðan.
Fjölgunin hefur verið hvað mest nú seinustu ár, þannig að á milli árana 2002 og 2003 fjölgaði um 7 íbúa og aftur milli 2003 og 2004 fjölgaði þeim um 2. Síðan hefur fjölgað um 5 síðan 1. desember 2004 og í dag eru Bæhreppingar 108. Fjölgunin er um 15% á síðast liðnum 6 árum. Aldursdreifingin í hreppnum er mjög lág, en meðalaldur íbúa í Bæjarhreppi er einungis um 33 ár miðað við 1. des. 2004 og hefur lækkað síðan. Trúlega þarf að líta til sveitafélaganna á Stór-Reykjavíkursvæðinu til að sjá sambærilega þróun.
Áslaug Ólafsdóttir starfsmaður hreppsins á skrifstofunni
Fjölgunin hefur fyrst og fremst verið fólgin í því að ungt fólk hefur í töluverðu mæli flutt í hreppinn og tekið við bújörðum af eldra fólki. Þetta hefur svo aftur haft þær afleiðingar í för með sér að mörg börn hafa fæðst í hreppnum á undanförnum árum. Fólk hefur einnig flutt í hreppinn vegna starfa sem fjölgað hefur í hreppnum, m.a. vegna aukinna umsvifa Grunnskólans.
Um 1995 náði barnafjöldi á grunnskólaaldri lágmarki í hreppnum, en þá voru þau ekki nema 4 talsins. Var þá Grunnskólanum á Borðeyri lokað tímabundið og þjónustan sótt að Reykjum. En frá haustinu 2001 hefur Grunnskólinn verið rekinn á Borðeyri og eru nú 19 börn í fyrsta til sjötta bekk og önnur fjögur eru í efri bekkjum grunnskóla í Húnaþingi vestra, samtals 23 börn á grunnskólaaldri. Dagvistun er einnig rekin samhliða Grunnskólanum og eru fimm börn á þeim aldri og önnur sex þar undir, samtals 34 börn.
Skólabörnin á Borðeryi og skólahúsið
Að sögn Kristínar Árnadóttur skólastjóra þá er Grunnskólinn á Borðeyri á skrá hjá Kennaraháskóla Íslands sem viðtökuskóli kennaranema í vettvangsnámi. Síðan skólinn fór aftur í gagnið haustið 2001 hafa stöðugt verið kennaranemar við skólann og hafa þeir komið víða að. Tveir kennaranemar eru um þessar mundir við nám í skólanum þær Jóna Guðrún Ármannsdóttir í Laxárdal og Marí Kristín Sævarsdóttir frá Sauðárkróki. Grunnskólinn á Borðeyri hefur sótt um aðild að "skólum á grænni grein" sem þýðir að skólinn markar sér umhverfisstefnu og starfar eftir því.
Grunnskólabörnin og hluti dagvistunarbarna og með þeim Kristín Árnadóttir skólastjóri lengst til hægri, Katrin Kristjánsdóttir kennari önnur frá vinstri og Sigurlaug Árnadóttir dagvistunarstjóri lengst til vinstri.
Í raun eru íbúar í Bæjarhreppi nokkuð sjálfum sér nógir með flest, því þar er til staðar stór hluti þeirrar þjónustu sem eitt sveitarfélag þarf á að halda. Auk skólans er þar rekin m.a. verslun og sparisjóður, einnig er rekin þar ýmis önnur þjónusta sem gott er að hafa í nálægð. Bæjarhreppur rekur eigin brunavarnir, Brunavarnir Bæjahrepps, og nýverið var bætt við öflugum slökkvibíl í tækjakostinn, sem staðsettur er á Borðeyri. Til gamans má geta að hreppurinn er næstminnsta sveitafélag landsins sem rekur eigin brunavarnir.