22/12/2024

Ítölsk veisla í Galdragarðinum

Strandagaldur bauð Menningarfulltrúa Vestfjarða til hádegisverðar í Galdragarðinum á Hólmavík í gær af tilefni útkomu ítalskrar þýðingar fyrir Galdrasýningu á Ströndum. Menningarráð Vestfjarða styrkti þýðingarverkefnið í vetur. Á matseðlinum voru ítalskir réttir, lasagne og bolognese, framreiddir í nornapottum í miklu blíðskaparveðri sem minnti mest á ítalskt sumar. Að sögn Sigurðar er núna hægt að fá upplýsingar um sýninguna á fjórum tungumálum auk íslensku, á ensku, þýsku, frönsku og ítölsku. Það sé afar mikilvægt fyrir verkefni eins og Galdrasýningu á Ströndum sem hefur gæði upplýsinga í fyrirrúmi að Menningarráð Vestfjarða sá sér fært að styðja við verkefnið.

„Það er von okkar og vissa að ítölskumælandi ferðamönnum muni fjölga til muna á Galdrasýningu á Ströndum með tilkomu ítölsku þýðinganna en þeir fjölmenna til landsins í ágústmánuði ár hvert“, segir Sigurður, „og það er skemmtilegt að geta komið þakklætisvotti á framfæri til Menningarráðsins með svona dýrlegri ítalskri máltíð“.

Galdrasýning á Ströndum kallast Stregoneria a Magia in Islanda á ítölsku en þýðingarnar voru unnar af þýðingarstofunni Markmál.

Menningarfulltrúinn og galdramaðurinn tóku hraustlega til matar síns