Íþrótta- og tómstundafélag lögreglunnar á Hólmavík afhenti Skíðafélagi Strandamanna í dag 50 þúsund króna peningagjöf til að efla og styrkja starf félagsins. Jafnframt gaf félagið veglegan bikar sem í framtíðinni verður afhentur Íþróttamanni Strandabyggðar árlega. Stofnuð hefur verið sérstök valnefnd sem velur íþróttamann ársins í sveitarfélaginu. Með þessu vilja lögreglumennirnir stuðla að eflingu íþróttastarfs á svæðinu.
Bikarinn fyrir Íþróttamann ársins í Strandabyggð er veglegur. Um er að ræða farandbikar sem verður væntanlega afhentur fljótlega á árinu til Íþróttamanns ársins 2006.
Hannes Leifsson yfirvarðstjóri afhenti Magnúsi Steingrímssyni formanni Skíðafélags Strandamanna gjafabréf fyrir 50 þúsund sem fer í að efla starfsemi félagsins. Í Íþrótta- og tómstundafélagi lögreglumanna á Hólmavík eru Hannes Leifsson, Valdemar Guðmundsson, Már Ólafsson og Gunnar Jónsson.