12/11/2024

Arí-dúarí-dúra-dei

Stjórn Leikfélags Hólmavíkur veltir nú fyrir sér í fullri alvöru að setja stórleikritið Þið munið hann Jörund á svið í vor. Búið er að ráða leikstjóra, hvert sem verkið verður, og er það góðkunningi Leikfélagsins sem stýrir uppsetningunni að þessu sinni, Skúli Gautason. Til að komast að því hvort þetta stórvirki sé framkvæmanlegt eru allir sem áhuga hafa á því að vinna með Leikfélaginu í vetur við uppsetningu á Þið munið hann Jörund beðnir um að hafa samband, jafnt konur og karlar. 

Ætlunin er að byrja að æfa á þriðjudaginn svo nú þarf að ákveða sig og hafa samband við Ásu í síma 456 3626 eða Söbbu í síma 4513476. Ekki er nauðsynlegt að geta bæði sungið og leikið, því söngflokkur sér að mestu leyti um sönginn og leikflokkur um leikinn í leikritinu.