19/04/2024

Innblástur frá Ströndum

flaedarmal

Vigdís Gímsdóttir rithöfundur hefur löngum dvalið í Norðurfirði á Ströndum við skrif sín. Í fyrrasumar tók hún á móti hópi ritlistarnema úr Háskóla Íslands í nokkurs konar vinnusmiðju. Nú eru þessir ritlistarnemar að gefa út bók með verkum sínum sem mörg hver urðu til í Norðurfirði. Útgáfa bókarinnar, sem fengið hefur heitið Flæðarmál, er samstarfsverkefni ritlistarnema og ritstjórnarnema í Háskólanum. Í Flæðarmáli eru verk sem eru ólík að formi og innihaldi. Ljóð, prósar og smásögur um slægð, fegurð, svik, flótta, sorg, grimmd, ást, dauða og sitthvað fleira sem konum liggur á hjarta, því svo vill til að hópurinn samanstendur eingöngu af konum. 

Til að standa straum af kostnaði við útgáfuna var sett af stað söfnun í samstarfi við Karolina Fund og er almenningur hvattur til að styrkja verkefnið á http://www.karolinafund.com/project/view/319. Ýmsar fréttir af gangi útgáfunnar má nálgast á facebook-síðu Flæðarmáls: https://www.facebook.com/flaedarmal

Höfundar bókarinnar eru: Bjargey Ólafsdóttir, Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Ingibjörg Magnadóttir, Árný Elínborg Ásgeirsdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir, Helga Ágústsdóttir, Þuríður Elfa Jónsdóttir og Júlía Margrét Einarsdóttir. Ritstjórar eru: Ingibjörg Valsdóttir, Elín Valgerður Margrétardóttir, Ragna Ólöf Guðmundsdóttir, Rannveig Garðarsdóttir, Sigríður Ásta Árnadóttir og Inga Rósa Ragnarsdóttir. Umsjón með námskeiðinu hefur Sigþrúður Gunnarsdóttir.