22/12/2024

Idolpartý á úrslitakvöldi

Nú er komið endanlega í ljós að Stöð 2 verður með beina útsendingu frá Idol-samkomunni á Hólmavík, heimabæ Heiðu Ólafs. Skipuleggjendur hafa staðið í ströngu þessa viku til að tryggja að þetta geti gerst og Galdrasýning á Ströndum hefur komið gríðarlega sterk inn í undirbúninginn. Galdrasýningin hefur staðið fyrir framleiðslu og sölu á "Áfram Heiða bolum" og einnig tryggt að Coca-Cola mun gefa partýgestum frítt gos að drekka.

Einnig hefur verið unnið að lagfæringum á samkomusal sýningarinnar, en nú virðast vera að skapast skiptar skoðanir um hvar úrslitapartýið eigi að vera – undirskriftarlista hefur verið komið fyrir í Söluskála KSH þar sem krafist er að samkoman verði haldin í Félagsheimilinu. Ekki kemur fram á listanum hverjir standa fyrir honum.

Síðasta Idol-kvöld fór fram í húsnæði Galdrasýningarinnar. Þar komast tæplega 100 manns í sæti í austurhúsinu, auk þess sem fyrirhugað er að hafa sæti og stóra skjái í öðrum rýmum hússins. Talsvert fleiri komast fyrir í aðalsal félagsheimilisins sem er aftur á móti þekktur fyrir afleitan hljómburð.