23/12/2024

Idolkvöld á Hólmavík

Heiða ÓlafsNæsta föstudagskvöld verður haldin heilmikil Idol-samkoma í Bragganum á Hólmavík, en þar mun Idol-keppni kvöldsins verða sýnd á bíótjaldi. Að sjálfsögðu verður Heiða Ólafs frá Hólmavík í aðalhlutverki í Bragganum og verður örugglega hvött dyggilega áfram. Það er Sigurður Marinó Þorvaldsson á Hólmavík sem hefur einna helst unnið að því hörðum höndum að þessum atburði verði hrint í framkvæmd, en hann fékk endanlegt leyfi frá Stöð 2 í dag um að Strandamenn geti fengið að njóta atburðarins með þessum hætti. 

KB-banki og Sparisjóður Strandamanna munu styðja uppákomuna með því að borga sýningarleyfi sem kaupa þarf af Stöð 2 til að mega sýna þáttinn með þessum hætti. Þá mun Sauðfjársetur á Ströndum og Strandagaldur leggja til skjávarpa.

"Þetta verður án efa mjög gaman og að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir að Hólmvíkingar muni fjölmenna á samkomuna. Þetta er líka frábær leið til að hvetja Heiðu til dáða og senda henni hlýja strauma – þeir munu án efa skila sér til hennar alla leið í Smáralind," sagði Sigurður í samtali við strandir.saudfjarsetur.is.

Atburðurinn verður auglýstur nánar hér á strandir.saudfjarsetur.is þegar nær dregur.