26/12/2024

Idol-æði í Bragganum!

Idol í BragganumÁ föstudagskvöldið kl. 20:30 hefst fyrsta Idol-partý Hólmvíkinga í Bragganum á Hólmavík. Partýið er að sjálfsögðu haldið vegna gríðarlegs áhuga Hólmvíkinga og annarra Strandamanna á Idolkeppninni sem Hólmvíkingurinn Heiða Ólafs er á góðri siglingu í. Allir eru velkomnir í Braggann, börn sem fullorðnir, en aðgangur er ókeypis.

Keppnin verður sýnd á stóru tjaldi og fullkomið hljóðkerfi verður á staðnum til að flutningur keppenda komist vel til skila. Í hléi verður gerð skoðanakönnun meðal gesta um hverjir lendi í þremur neðstu sætunum og hver muni detta út.

Fjölmargir leggja hönd á plóginn til að af þessu kvöldi geti orðið. KB-banki á Hólmavík og Sparisjóður Strandamanna borga leyfi sem þarf frá Stöð 2 til að sýna keppnina, Grunnskólinn á Hólmavík leggur til hljómflutningsgræjur og Bjarni Ómar Haraldsson tónskólakennari mun leggja sína ljúfu hönd á plóginn við uppsetningu hljóðkerfisins, Sauðfjársetur á Ströndum og Galdrasýning á Ströndum leggja til skjávarpa og síðast en ekki síst útvegar Magnús H. Magnússon, eigandi Café Riis og Braggans, húsnæði undir viðburðinn. Það er Sigurður Marinó Þorvaldsson á Hólmavík sem ber hita og þunga af undirbúningi skemmtunarinnar.

Eins og áður segir er frítt inn og öllum er því velkomið að mæta hvenær sem þeir vilja og fara hvenær sem þeir vilja. strandir.saudfjarsetur.is vilja hér með hvetja alla til að mæta í Braggann og hvetja okkar manneskju til dáða og góðs söngs. Áfram Heiða!