15/04/2024

Íbúafundur um bæjarhátíð á Hólmavík

Klukkan 20:00 í kvöld, mánudagskvöldið 9. maí, verður haldinn íbúafundur í félagsheimilinu á Hólmavík. Á fundinum verða kynntar hugmyndir Menningarmálanefndar Hólmavíkurhrepps um bæjarhátíð sem fram fer dagana 30. júní til 3. júlí nk. Í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjóra kemur fram ósk um að sem flestir mæti á fundinn – bæði íbúar hreppsins, forsvarsmenn félagsamtaka, stofnanna, aðila í verslun og þjónustu og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta. Þarna gefst fundarmönnum gott tækifæri til að láta hugmyndir sínar í ljós og kynnast þeim hugmyndum sem verið er að móta um hátíðina af hálfu Menningarmálanefndar.


Í fréttatilkynningunni kemur fram að nafn vantar enn á hátíðina og vonast Menningarmálanefnd til þess að þeir sem mæta til fundarins komi með tillögur að nafni sem hægt verður að setja í þar tilgerðan kassa á meðan á fundinum stendur. Veitt verður viðurkenning fyrir það nafn sem verður fyrir valinu.
 
Tekið hefur verið saman ítarlegt kynningarefni sem liggur frammi frá kl 19:30 og þannig gefst áhugasömum tækifæri til að glugga í það áður en fundurinn hefst.