Aðsend grein: Jón Bjarnason
Yfirlýsing Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðaráðherra Framsóknaflokksins um einkavæðingu og sölu raforkufyrirtækja landsmanna koma eins og köld vatnsgusa yfir þjóðina. Í fréttum í gær lýsti hún áformum sínum og ríkisstjórnarinnar um sameiningu Landsvirkjunar, Rarik og Orkubús Vestfjarða í eitt fyrirtæki sem síðan yrði einkavætt og selt á næstu 4 árum.
Margur hélt að nú yrði hlé á einkvæðingunni. En svo á ekki að vera ef stefna Framsóknar nær fram að ganga. Síminn skal seldur og nú orkuveitur landsmanna. Hvenær segir þjóðin stopp?
Er skemmst að minnast yfirlýsinga og óska norðlensku veitnanna, Norðurorku og Skagafjarðarveitna um að leysa til sín eignir Rariks á sínum svæðum. Staðbundnar orkuveitur eru aflvaki hvers héraðs.
Þessi einkavæðingaryfirlýsing ráðherra Framsóknarflokksins gengur þvert gegn óskum heimamanna á Norðurlandi og Vestfjörðum og vonandi gegn vilja meginþorra þjóðarinnar. Öllum er í fersku minni loforð ríkisstjórnarinnar til Vestfirðinga þegar þeir voru knúnir til að selja Orkubúið. Það skyldi áfram vera sjálfstætt og öflugt. Hvar eru nú loforð Ríkisins og Rariks til Skagafirðinga þegar Rafveita Sauðárkróks var höfð af þeim þvert gegn vilja heimamanna?
Það verður að stöðva öll frekari áform um einkavæðingu raforkukerfa landsmanna. Því hefur þingflokkur Vinstri grænna sent frá sér í dag meðfylgjandi yfirlýsingu. Vinstri grænir, einir flokka, berjast alfarið gegn frekari einkavæðingu raforkukefisins.
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir furðu sinni á bollaleggingum Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra um sameiningu orkufyrirtækja. Þingflokkurinn mótmælir harðlega öllum áformum ráðherrans um frekari markaðs- og einkavæðingu almannaþjónustu á sviði orkuframleiðslu og orkudreifingar á næstu árum. Hugmyndir ráðherrans ganga þvert á vilja heimamanna á svæðum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Þessi áform, ef af verður, fela í sér hrein svik á þeim loforðum sem Vestfirðingum voru gefin um áframhaldandi sjálfstæðan rekstur Orkubúsins og óbreytt umsvif vestra þegar sveitarfélögin neyddust til að selja Orkubúið vegna erfiðrar fjárhagsstöðu fyrir nokkrum árum.
Kerfisbreytingar í raforkumálum um síðastliðin áramót hafa nú leitt til umtalsverðra hækkana raforkuverðs þvert ofan í það sem iðnaðarráðherra hafði fullyrt. Mikil óvissa er um þróun mála á þessu sviði og afkomuhorfur og efnahag fyrirtækjanna, ekki síst Landsvirkjunar, vegna óhagstæðra samninga um orkusölu til nýrrar stóriðju. Bollaleggingar ráðherra nú um frekara umrót í orkugeiranum eru í öllu falli hreinn glannaskapur. Auk þess á augljóslega að fórna hagsmunum íbúa landsbyggðarinnar og allra almennra raforkunotenda eina ferðina enn í þágu einkavæðingarstefnunnar og til að greiða niður tapið af orkuútsölunni til stóriðjunnar.
Jón Bjarnason,
þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi