23/12/2024

Hvalveiðar eru í samræmi við auðlindastefnu okkar

Aðsend grein: Einar K. Guðfinnsson
Hvalveiðarnar sem voru heimilaðar á dögunum voru rökrétt framhald af stefnu okkar um árabil. Alþingi samþykkti með yfirgnæfandi stuðningi að hefja veiðar hið fyrsta. Við gengum í Alþjóðahvalveiðiráðið, urðum aðilar að CITES og kynntum málstað okkar í hvalamálunum fyrir erlendum stjórnvöldum og öðrum áhrifamönnum. Við hófum svo veiðar í vísindaskyni árið 2003 og veiddum 60 hrefnur í sumar; sem er talsverð veiði, án þess þó að til mótmæla kæmi.

Engum hefði átt að koma á óvart að hvalveiðar hæfust nú. Fyrirvararnir sem við settum við inngönguna í Alþjóðahvalveiðiráðið eru nú orðnir virkir. Við höfum þjóðréttarlega og siðferðilega stöðu til að hefja veiðarnar. Undirbúningur hefur verið mikill og þjóðin styður framtakið. Hefðum við ekki byrjað veiðarnar er ljóst að það hefði mátt túlka sem stefnubreytingu.

Hvalveiðar eru í samræmi við þá stefnu sem allir stjórnmálamenn sem vilja túlka íslensk sjónarmið í auðlindanýtingu hafa talað fyrir. Þetta eru sjálfbærar veiðar úr stofnum sem eru nú í sögulegri stærð. Það er ljóst að það að veiða ekki hval hefur neikvæð áhrif á aðra fiskistofna og rýrir þannig lífskjör. Rétturinn er okkar meginn. Málstaðurinn er okkar megin og það er svo okkar að reyna að túlka hann.

Viðbrögð annarra þjóða hafa öll verið fyrirsjáanleg. Bretar, sem þessa dagana eru að ræða með öðrum ESB þjóðum ium veiðibann á þorski í Norðursjó, vegna mistaka við veiðistjórnun, setja oní við okkur. Þeim ferst líklega. Svipuðan málflutning flytja nokkrar aðrar þjóðir einnig. Allt eins og við vissum. Breski sendiherrann kom að kjarnanum úr málflutningi þessara þjóða er hann sagði Breta andvíga hvers konar hvalveiðum. Hann er með öðrum orðum ekki talsmaður sjálfbærrar þróunar, heldur skilyrðislausrar verndunar. Það á ekkert skilt við náttúruvernd, eða umhverfisstefnu. Þetta er ósköp venjuleg einsýni, fanatík, lituð fordómum.

Gleymum því á hinn bóginn ekki að við eigum víða vinum að mæta í hvalamálunum erlendis. Með hvalveiðum sláumst við svo í hóp hvalveiðiþjóða á borð við Bandaríkin, Rússa og Japani. Í þessum hópi eru einnig Kanadamenn, Grænlendingar og Norðmenn.

Þjóðarviljinn er skýr. Hann birtist þó ekki vel í þingsölum í gær þar sem talsmenn tveggja af þremur stjórnarandstöðuflokkunum töluðu gegn hvalveiðum. Augljóst er að margir kjósendur þessara flokka hafa orðið fyrir vonbrigðum. Óhætt er  að fullyrða að máflutningur flokkanna endurspeglar ekki vilja allra flokksmannanna og örugglega minnihluta flokksmanna í tilviki Samfylkingarinnar. Þessir flokkar hafa bersýnilega orðið viðskila við kjósendur sína í þessu máli.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra
og þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
www.ekg.is.