22/12/2024

Hvað eru Strandamenn að brasa um helgina?

Eins og venjulega er ýmislegt um að vera um helgina og margt sem Strandamenn dunda við í frístundum og vinnu. Í dag, laugardaginn 18. mars, ætla Drangsnesingar og nágrannar að hittast kl. 12:30 við Kaupfélagið og ganga síðan á Bæjarfellið. Bridgefélagið á Hólmavík leggur líka í ferðalag og hittir spilara úr Borgarfirði og á Norðurlandi vestra og spilar síðan allan daginn í skólanum á Borðeyri. Það mót hefst kl. 13. Nokkrir félagar í Skíðafélagi Strandamanna skelltu sér líka á Ísafjörð á skíðamót um helgina. Syðra er mikið útgáfuhóf á sextugsafmæli Stefáns Gíslasonar frá Gröf í Bitru, en bókin Fjallvegahlaup verður kynnt í Gym&Tonic salnum á Kex Hostel.

Það viðrar vel fyrir fjallaferðir og um helgina er tekið á móti hópi sleðamanna á Hótel Djúpavík, en akvegurinn norður er auglýstur lokaður á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Á sunnudeginum 19. mars er líka ýmislegt um að vera. Karlakórinn Söngbræður er með tónleika í Langholtskirkju í Reykjavík kl. 16, en í þeim kór eru söngmenn víða af Vesturlandi og Ströndum og stjórnandinn er Viðar Guðmundsson í Miðhúsum í Kollafirði og meðleikari Heimir Klemenzson.