Mikið fjölmenni sótti fyrri söngvarakeppnina á Café Riis í gærkvöldi þar sem 15 söngvarar öttu kappi. Gríðarleg stemmning er fyrir keppninni á Ströndum en húsfyllir var og skemmtu gestir sér hið besta. Frammistaða allra söngvaranna var glæsileg og menn höfðu á orði að það væri ekki öfundsvert að vera í dómnefndinni. En úrslit urðu að ráðast og eftir dágóða stund þá komst dómnefndin að niðurstöðu um hvaða átta söngvarar komust áfram og munu troða upp á úrslitaköldinu sem verður haldið í Bragganum á Hólmavík laugardaginn 15. október. Meðalaldur söngvaranna sem komust áfram er 39,75 ár sem segir til um mikla reynslu þeirra. Árni Þór Baldursson ljósmyndari strandir.saudfjarsetur.is var á staðnum og fangaði nokkur augnablik.
Ásdís Leifsdóttir (47) sveitarstjóri söng lagið Heartache Tonight með hljómsveitinni Eagles og gjörsamlega trylltist á sviðinu og hreif lýðinn með frammistöðu sinni.
Hlíf Hrólfsdóttir (42) þroskaþjálfi söng lagið Will You Still Love Me Tomorrow og hristi sig og skók í takt við það. Dómnefndin ákvað að elska hana áfram og sendi hana í Braggann.
Jón Halldórsson (49) bréfberi söng hið stórgóða lag Viltu koma sem er eftir hann sjálfan og heillaði dómnefndina og aðra upp úr skónum með flutningi sínum.
Rúna Stína Ásgrímsdóttir (43) meinatæknir söng lagið Bye Bye Love með Everly Brothers og vakti mikla ánægju og gleði hjá dómnefndinni og gestum, ekki síður fyrir frammistöðuna.
Salbjörg Engilbertsdóttir (38) skrifstofumaður söng hið stórfræga lag Fame og sýndi svo stórkostlega söngtakta og sviðsframkomu í flutningnum að menn muna vart annað eins.
Sigurður Atlason (44) framkvæmdastjóri söng ástaróðinn Hello sem Lionel Richie sló í gegn með. Sigurður tileinkaði lagið grábröndóttum ketti sem hann týndi fyrir 35 árum og fær að halda áfram leit sinni í Bragganum.
Sigurrós Þórðardóttir (24) leikskólastjóri söng lagið Ástarsæla með hljómsveitinni Hljómum. Hún náði salnum gjörsamlega á sitt vald og lék við hvern sinn fingur.
Stefán Jónsson (31) verkamaður tróð upp með lagið Mustang Sally með The Commitments. Gestirnir stóðu á öndinni meðan á flutningi hans stóð og dómnefndin skuldbatt hann til að halda áfram í Bragganum.
15 keppendur tóku þátt í undankeppninni og stóðu sig allir með glæsibrag. Á þessari mynd syngur allur hópurinn saman lokalagið YMCA.
Ljósmyndir: Árni Þór Baldursson