22/12/2024

Húsbílaeigendur forðast tjaldsvæði

Undanfarin sumur hefur orðið talsvert meira áberandi að ferðamenn á húsbílum búi sér næturstað í miðju Hólmavíkur í stað þess að bóka sig inn á þar til gert svæði fyrir húsbíla og tjöld. Sveitarfélagið hefur byggt upp fullkoma aðstöðu fyrir ferðamenn með ærnum tilkostnaði á tjaldsvæðinu á Hólmavík og sérstaklega útbúið viðunandi aðstöðu fyrir húsbíla eins og krafa er um. En svo virðist sem margir eigendur þessara bíla geti hreint ekki hugsað sér að borga fyrir þá aðstöðu sem þeir þó nota með einu eða öðru móti, án þess að greiða fyrir. Þetta er vandamál sem nokkur sveitarfélög á landinu hafa staðið frammi fyrir. Á Hornafirði var fyrir nokkru gerð gangskör að því að sjá til þess að ferðamenn bókuðu sig inn á tjaldsvæðið í stað þess að fylla götur bæjarins.

Meðfylgjandi mynd var tekin í gærkvöldi af tveimur húsbílum sem höfðu gert sig heimakomna við Höfðagötu á Hólmavík.