22/12/2024

Húsavíkurkindurnar senda SMS til byggða

Nú í vor hófust á Ströndum framhaldsrannsóknir á langtímatengslum áa á frjálsri sumarbeit og er staðsetningarbúnaður og GSM-tækni notuð við rannsóknina. Árin 2005-6 voru þessi tengsl rannsökuð innan fjölskyldna sauðfjár (móður, dætra og dótturdætra). Sú rannsókn, sem var gerð í Húsavík og á Innra-Ósi á Ströndum, var meistaraprófsverkefni Hafdísar Sturlaugsdóttur í Húsavík við Landbúnaðarháskóla Íslands. Framhaldsrannsóknirnar eru á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands, en Náttúrustofa Vestfjarða er samstarfsaðili.

Ný tækni er notuð við rannsóknina. 13 Húsavíkurær í þremur ættarhópum, fengu hálskraga með GPS staðsetningabúnaði og sendi. Hálskragarnir eru í sameign Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrustofu Austurlands. Hver kragi sendir frá sér eitt SMS á dag með staðsetningum (lengd og breidd) á þriggja tíma fresti eða 8 staðsetningar í hverju SMS skeyti. Ef ærin er kyrr í þrjá tíma sendir kraginn frá sér aðvörun um að dýrið sé hugsanlega veikt eða dautt. Ekki er vitað til þess að svona staðsetningarbúnaður hafi verið notaður við rannsóknir á dýrum hér á landi áður.

Hálskragi

Mjög miklar upplýsingar fást með þessu móti. Hægt er að fylgjast með hve mikið ærnar færa sig innan sólarhrings, hvort þær eru mikið á ferðinni á beitilandinu, hvort veður skipti máli og einnig hvort ær úr sömu fjölskyldu séu á sama svæði. Einnig væri hægt að skoða hvort gróður á beitilandinu hafa áhrif á fallþunga lamba og jafnvel bragðgæði kjötsins.

Söfnun upplýsinganna gengur mjög vel. Kragarnir ná að taka staðsetningu og senda frá sér skeyti flesta daga, en ef ekki tekst að senda skeyti, bíður það þar til ærin kemst næst í gemsasamband. Úrvinnsla gagna er ekki hafin ennþá, en við fyrstu skoðun gagnanna kemur í ljós að ærnar af sömu fjölskyldu halda til á sama svæði og er það í samræmi við fyrri niðurstöður Hafdísar. Í haust er ætlunin að vinna úr gögnunum og birta niðurstöður.

Bændur í Húsavík vonast til að frekari þróun á þessari tækni leiði til þess að hægt verði að senda ánum SMS á haustin og segja þeim að nú sé komin tími til að koma heim og sleppa þannig við smalamennskur.

landbunadur/580-kort2.jpg

Á kortunum hér fyrir ofan má sjá allar staðsetningar einnar kindar í júní og er þar á ferðinni tvílemba nr. 06-662. Á efri myndinni sést að skeytin koma úr túngirðingunni þangað til 10. júní. Kindinni er sleppt úr girðingunni þann 11. júní og hún fer þá á einum sólarhring í sumarhagana fram á Tungudal þar sem hún hefur haldið sig síðan á tiltölulega afmörkuðu svæði, eins og sjá má á neðri myndinni. Neðsti punkturinn á efri myndinni og efsti á þeirri neðri er sama hnitið, þegar hún er á leið í sumarhagann. Búið er að setja nokkur örnefni inn á loftmyndina til að menn geti glöggvað sig á staðháttum.

Sambærileg kort eru um ferðir allra annarra kinda með staðsetningarbúnaðinn og hægt að skoða margvíslega myndræna framsetningu á ferðum kindanna, einnar eða margra í einu.