10/09/2024

Hulda – hver á sér fegra föðurland?

Tónlistarkonurnar Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir hafa í nokkur ár starfað saman sem dúett (píanó/söngur) og haldið saman marga þematengda tónleika þar sem efnistökin eru oftar en ekki ákveðin ljóðskáld eða tónskáld, bæði úr klassískum grunni og heimi dægurtónlistar. Í vor fengu þær Listamannalaun til að vinna að verkefni og tónlistardagskrá um Huldu skáldkonu. Á  föstudagskvöld kl. 21 verða tónleikar í Hólmavíkurkirkju sem eru afrakstur þeirrar vinnu.

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind fæddist þann 6. ágúst 1881 og lést 10. apríl 1946. Hún skrifaði ljóð og prósa undir skáldanafninu Hulda. Eitt þekktasta ljóð hennar var ættjarðarljóðið Hver á sér
fegra föðurland úr ljóðaflokknum Söngvar helgaðir þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944, samið í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944 og var annað tveggja ljóða sem vann samkeppni um hátíðarljóð.

Á þessum tónleikum verða flutt lög íslenskra tónskálda við texta Huldu ásamt frumflutningi á tónlist eftir Daníel Þorsteinsson sem hann samdi sérstaklega fyrir Helgu og Þórhildi fyrir þessa
dagskrá. Tónlistinni er fléttað saman við frásagnir af lífi Huldu og verkum hennar. Tónleikarnir eru styrktir af Sóknaráætlun Norðurlands eystra, KEA, Dagskrá Fullveldishátíðar og
Listamannalaunum og unnir í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar, Menningarmiðstöð Þingeyinga og Minjasafnið á Akureyri.

Aðgangseyrir er kr 3000, eldri borgarar og öryrkjar kr 2500, frítt fyrir 12 ára og yngri. Myndina sem fylgir fréttinni tók Daníel Starrason af þeim Helgu Kvam og Þórhildi Örvarsdóttur.