22/12/2024

Hraðakstur við Hólmavík

Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að í vikunni sem er að líða var tilkynnt um tvö umferðaróhöpp í umdæminu. Um miðnætti aðfaranótt sl. föstudags var tilkynnt að jeppabifreið hefði verið ekið utan í vegg í Vestfjarðargögnunum, Önundarfjarðarmegin. Ekki urðu slys á fólki, en talsvert eignartjón og bifreiðina þurfti að fjarlægja með krana. Þá barst tilkynning til lögreglu á föstudag að bíl hefði farið út af á Steingrímsfjarðarheiði. Ekki var um slys á fólki að ræða og litlar skemmdir. Ökumaður var aðstoðaður við að koma bíl sínum upp á veg.


13 ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu í liðinni viku, allir í nágrenni við Hólmavík. Sá sem hraðast ók, var mældur á 132 km/klst., þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.

Á þessum árstíma er alltaf eitthvað um að grjót hrynji á þjóðvegina og bárust tvær tilkynningar til lögreglu um grjóthrun, annað á Óshlíð og hitt í Arnarfirði nálægt Mjólkárvirkjun.