23/12/2024

Holóttir og hörmulegir malarkaflar

BrekkurekinnMalarvegir á Djúpvegi sunnan Hólmavíkur hafa verið óvenjulega leiðinlegir í haust, holóttir og hörmulegir. Þetta er í rökréttu samhengi við miklar haustrigningar á þessum slóðum. Mikið rigndi ofan í nýtt efni sem ekið var í veginn milli Þorpa og Heydalsár í Steingrímsfirði um miðjan október og varð sá kafli ekki skárri eftir þær vegabætur, þótt væntanlega sé ofaníburðurinn til gagns til lengri tíma litið. Malarkaflar í Kollafirði og Bitrufirði, bæði Undralandsgrundirnar, Broddaneshlíðin og Brekkurekinn hafa verið afleitir og óteljandi ógnardjúpar holur hafa myndast þar. Á sunnudaginn var fréttaritari á ferð um Bitruna og þá var hefill að störfum á Brekkurekanum þar sem ástandið var verst og þurfti að rista djúpt til að ná í botninn á holunum.

Brekkurekinn

Hefill að störfum milli Skriðinsenni og Bræðrabrekku í Bitru á sunnudaginn

vegamal/580-thorpar-for.jpg

Hámarkshraði hefur verið lækkaður milli Þorpa og Heydalsár í 50, en ástandið er verst þar sem malbikið endar og mölin tekur við hjá Þorpum.

– Ljósm. Jón Jónsson