
Ástand netmála á Hólmavík og nágrenni hefur verið algjörlega óviðunandi undanfarna mánuði en línan til kauptúnsins er engan veginn nógu afkastamikil. Netfyrirtækið Snerpa á Ísafirði sem hefur þjónustað Strandamenn af miklum myndugleik hefur farið fram á stækkun sambandsins á Strandir af hendi Símans en þar hefur verið fátt um svör og óvíst hvort Síminn hyggist sinna viðskiptavinum sínum á Ströndum nema með hangandi hendinni. Flesta daga hefur álagið verið svo mikið að mörg fyrirtæki og stofnanir sem nota netið í sínum rekstri hafa lent í stórkostlegum vandræðum og tímahraki.
Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is hefur ekki fregnað hversu neðarlega í bunkanum skuldbinding Hólmvíkinga að kaupa þjónustuna af Símanum hefur lent og furðar sig raunar yfir því ef skuldbindingar gilda ekki á báða bóga. Upplýsingafulltrúi Símans hefur ekki tjáð sig um skyldur Símans gagnvart þeim sem skráðu sig á listann. Þess má geta að langflestir íbúar í þéttbýli á landinu, að Vestfjörðum meðtöldum, hafa kost á ADSL tengingu.
Eva Magnúsdóttir getur þess að Síminn muni leitast við að hraða uppsetningu eins mikið og kostur er og að sjónvarpsverkefni Símans hafi auk þess verið stærsta verkefni ársins og að eftirspurn eftir þeirri þjónustu sé gríðarleg.