22/11/2024

Hólmavíkurkirkja skrýdd bleikum ljósum

Í októbermánuði ár hvert er vakin sérstök athygli á brjóstakrabbameini með sérstakri fræðslu um sjúkdóminn og konur eru hvattar til að nýta sér boð leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins um röntgenmyndatöku. Októberátakið er hluti af alþjóðlegu árveknisátaki sem hefur bleikan lit sem tákn. Krabbameinsfélagið Sigurvon stóð fyrir því að lýsa upp Hólmavíkurkirkju í bleiku til að minna á átakið, en kirkjan verður lýst upp með bleikum ljósum út mánuðinn. Með hliðstæðum hætti verða lýst upp mannvirki í fjörutíu löndum, meðal annars Empire State í New York, Niagara fossarnir, Harrods í London og Ráðhúsið í Reykjavík svo eitthvað sé nefnt.

Árveknisátakið felst ekki síst í því að vekja athygli á þessum sjúkdómi, sem tíunda hver kona á Íslandi greinist með einhvern tíma á lífsleiðinni, fræða um hann og hvetja konur til að nýta sér boð leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins um röntgenmyndatöku. Konur hafa brugðist vel við en óvenju góð aðsókn er ávallt í október.


Hólmavíkurkirkja skrýdd bleiku
Ljósm.: Sigurður Atlason