22/11/2024

Hollvinasamtök Borðeyrar

Í sumar voru stofnuð Hollvinasamtök Borðeyrar við Hrútafjörð. Mæting var góð á stofnfundinn og fór fram úr björtustu vonum þeirra er að undirbúningi komu, en 28 manns sátu fundinn og skráðir félagar eru nú orðnir 50 talsins. Á stofnfundinum voru samþykktar samþykktir fyrir Hollvinasamtökin, þar sem m.a. kemur fram að markmið þeirra sé að "hlúa að og efla Borðeyri með uppbyggingu og sögu staðarins að leiðarljósi." Borðeyri, sem telst eitt minnsta þorp á Íslandi, er merkur sögustaður.

Þar má t.d. nefna verslunarsögu staðarins, einnig var þar mikilvæg höfn fyrir sauðaútflutning og þaðan fóru fjölmargir Vesturfarar í skip. Á Borðeyri var lengi símstöð er þjónaði stóru svæði og þar fæddist Þorvaldur Skúlason listmálari. Eins byrjaði Thor Jensen sinn verslunarferil þar og vera breska hersins í seinni heimstyrjöldinni hafði afdrifamiklar afleiðingar fyrir þorpið sökum bruna. Og þannig má áfram telja.

Stofnfundur samtakanna kaus sér 5 manna stjórn til 2 ára, en hana skipa: Heiðar Þór Gunnarsson Borðeyri,
Bjarni Benediktsson frá Kollsá, Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir Kollsá, Guðni Þórðarsson Tungu Svínadal og
Lárus Jón Lárusson Borðeyri.

Fyrirhugað er að stofna heimasíðu Hollvinasamtaka Borðeyrar, þar sem ætlunin er að setja inn sem mest af sögutengdu efni í máli og myndum er viðkemur Borðeyri. 

Þeir sem áhuga hafa á að gerast hollvinir Borðeyrar gefst kostur á að skrá sig á einhver eftirtalinna netfanga stjórnarmanna, með nafni, kennitölu og heimilisfangi (árgjald samtakanna var ákveðið kr 1.500) – kollsa@simnet.is, ljehf@emax.is, bja.ben@gmail.com og hlidarhus@emax.is.