22/12/2024

Hertar reglur um öryggi á sundstöðum

Ný reglugerð um öryggi á sundstöðum tók gildi um áramótin og eru nú gerðar ítarlegri kröfur um öryggiskerfi og laugargæslu en í eldri reglugerð. Þá eru auknar kröfur gerðar um öryggi barna og sérstakar kröfur gerðar til sundlaugavarða, kennara og þjálfara. Sundstöðum er nú gert að hafa stöðuga laugargæslu meðan gestir eru í laug og er laugarvörðum óheimilt að sinna öðrum störfum samhliða. Börnum yngri en tíu ára er nú óheimilt að fara í sund nema í fylgd með syndum einstaklingi sem er fimmtán ára eða eldri.

Einnig eru gerðar ríkari kröfur til starfsfólks sundstaða. Það skal fá starfsþjálfun árlega, þar með talda þjálfun í sérhæfðri skyndihjálp. Starfsmenn sem sinna laugargæslu verða að hafa náð átján ára aldri og þurfa einnig að standast hæfnis- og þolpróf til að fá að sinna sínum störfum.

Reglugerðin gildir um alla sund- og baðstaði sem almenningur hefur aðgang að, baðstofur og setlaugar.