22/12/2024

Héraðsráð Strandasýslu ályktar um vegamál

Héraðsráð Strandasýslu hefur samþykkt ályktun vegna samgönguáætlunar þar sem framkvæmdum við nýjan veg um Arnkötludal er fagnað. Jafnframt er lýst yfir vonbrigðum með aðra hluta áætlunarinnar sem snúa að Ströndum og kemur fram að Héraðsráð telur hana ekki til þess fallna að sporna við fólksfækkun á svæðinu og bendir á að mikil þörf sé á góðum samgöngum innan sýslunnar.

Ályktunin er svohljóðandi í heild sinni:

"Héraðsráð vill um leið og fagnað er framkomnum áætlunum um nýjan veg um Arnkötludal vestur í Reykhólasveit lýsa yfir vonbrigðum sínum með aðra þá hluta samgönguáætlunar sem varða Strandasýslu.
Telur Héraðsráð Strandasýslu að framkomin samgönguáætlun séu mikil vonbrigði fyrir íbúa Strandasýslu og ekki til þess fallin að sporna við frekari fólksfækkun á svæðinu.

Þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að hafa góðan veg til Höfðuborgarsvæðisins er ekki síður þörf á góðum samgöngum innan sýslunnar. Hólmavík er þjónustukjarni byggðarlagsins og þangað verða íbúar utan þess þéttbýlis að sækja alla sína þjónustu, hvort sem það eru íbúar Strandabyggðar eða úr öðrum sveitarfélögum Strandasýslu. Frá Hólmavík er einnig skólaakstur um langan veg, bæði vestur í Djúp og eins suður í Bitrufjörð.

Héraðsráð Strandasýslu krefst þess að auknu fé verði veitt til vegabóta í Strandasýslu og framkvæmdir fluttar framar í tíma. Héraðsráð leggur þunga áherslu á að komið verði bundið slitlag á veginn milli Drangsness og Hólmavíkur fyrir árslok 2009.

Héraðsráð Strandasýslu krefst þess að vetrarþjónusta við Árneshrepp verði aukin verulega. Greiðar og öruggar samgöngur eru grunnþættir í atvinnu- og byggðamálum."