27/04/2024

Félagsmiðstöðin Ozon fær gítar að gjöf

Kvennahljómsveitin Micado á Hólmavík sem nú er hætt störfum og skipuð var af þeim Björk Ingvarsdóttir, Aðalheiði Lilju Bjarnadóttir, Jóhönnu Rósmundsdóttir og Ernu Hannesdóttir afhenti félagsmiðstöðinni Ozon nýlega að gjöf eigulegan rafgítar af Fender Squier gerð. Tilefnið er að á bæjarhátíðinni Hamingjudögum sumarið 2006 vann hljómsveitin 3. verðlaun í hljómsveitarkeppni sem þar fór fram. Verðlaununum ákváðu þær að ráðstafa með þessum hætti og styðja þar með við hljómsveitarstarf innan félagsmiðstöðvarinnar.

Það var Sylvía Bjarkadóttir varaformaður nemendaráðs sem tók við gjöfinni að viðstöddum nemendum í 7 – 10 bekk grunnskólans.