22/12/2024

Helstu verkefni lögreglu síðustu viku

Í vikunni sem leið urðu fjögur umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Á þriðjudaginn fór bifreið út af Djúpvegi í Ísafirði, bifreiðin var óökuhæf en ekki slys á fólki. Miðvikudaginn var tilkynnt um tvö óhöpp, annað á Ísafirði. Þar varð árekstur við gatnamót Silfurgötu og Tangagötu, talsvert tjón á ökutækjum, en ekki slys á fólki. Hitt var útafakstur á Holtavörðuheiði, eftir framúrakstur, við erfiðar akstursaðstæður, hálku og snjó. Ekki miklar skemmdir á ökutæki, eða slys á fólki.

Á föstudag tók 13 ára barn bifreið foreldra sinna ófrjálsri hendi og ók henni frá Hnífsdal til Ísafjarðar. Á Fjarðarstræti missti hann stjórn á bifreiðinni og ók utan í þrjár bifreiðar og á ljósastaur sem skemmdi eina bifreið til. Talsverðar skemmdir á öllum bifreiðunum.

17. febrúar varð vinnuslys við löndum á höfninni í Tálknafirði, þar klemmdist hönd á manni milli kara. Hinn slasaði var fluttur með sjúkrabíl á heilsugæslustöðina á Patreksfirði þar sem gert var að meiðslum hans.