22/11/2024

Helstu verkefni lögreglu í páskavikunni

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum var mikil umferð um norðanverða Vestfirði síðustu viku, aðallega í tengslum við hátíðarhöld á Ísafirði, skíðaviku og rokkhátíð alþýðunnar Aldrei fór ég suður. Umferð gekk stóráfallalaust þrátt fyrir rysjótt veðurfar um miðja vikuna. 38 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni, sá sem hraðast ók var mældur á 130 km hraða í Lágadal, innst í Ísfjarðardjúpi, þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.

Fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt. Eitt óhappið var minniháttar árekstur á Ísafirði. Á föstudaginn var tilkynnt um aftanákeyrslu á Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði, við Miðtúnsbrekku. Einn farþegi slasaðist minniháttar og talsverðar skemmdir urðu á bifreiðum og var önnur þeirra flutt með kranabifreið af vettvangi. Sama dag laust eftir hádegi fór bifreið út af Sandvegi í Bolungarvík. Í ljós kom að ökumaður var réttindalaus, enda bara 15 ára, en við hlið hans í bifreiðinni var faðir hans og eigandi bifreiðarinnar og var hann grunaður um ölvun. Bifreiðin reyndist lítið skemmd.

Á laugardaginn var tilkynnt að bifreið hafi farið í sjóinn skammt frá Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þarna hafði bifreið sem ekið var eftir Pollgötu verið ekið á grjótvörn við vegbrúnina og farið þaðan í sjóinn. Fjórir voru í bifreiðinni sem sökk strax til botns, en þeir sem í henni voru náðu að komast út úr henni og samkvæmt vitnum skaut þeim upp á yfirborð einu af öðru og voru aðstoðuð upp á þurrt. Fólkið sem var kalt og blautt, fékk aðhlynningu á lögreglustöð en því hafði ekki orðið meint af óhappinu að öðru leyti. Tildrög þessa óhapps eru til rannsóknar hjá lögreglu. Bifreiðin var hífð upp á land með stórum krana eftir að kafarar höfðu fest taugar í bifreiðina. Líklegt má telja að bifreiðin, sem var stór Ford pallbifreið, sé ónýt.

Um páskahelgina var talsverður erill hjá lögreglu enda mikill fjöldi gesta á þeim viðburðum sem í boði voru.  Talsvert eftirlit var viðhaft í tengslum við mögulega meðferð fíkniefna og var fenginn aðstoð frá embætti Ríkislögreglustjóra, en þaðan kom lögreglumaður fá lögreglunni á Akureyri með fíkniefnaleitarhund. Þrjú fíkniefnamál komu upp um helgina þar sem hald var lagt á fíkniefni í neysluskömmtum. Í einu málinu fannst nokkuð af fíkniefnum á farþega sem var að koma með flugi frá Reykjavík. Reyndist þar vera um 10 gr. af amfetamíni og 5 skammtar af meintu LSD, ásamt neysluáhöldum.

Um helgina voru tveir ökumenn kærðir fyrir meinta ölvun við akstur á Ísafirði. Tvær líkamsárásir voru kærðar um helgina, önnur á veitingastað á Ísafirði en hin á hafnarsvæðinu skammt frá tónleikasvæðinu. Í því tilfelli veittist meintur gerandi að lögreglumönnum þegar afskipti voru höfð af málinu og varð að yfirbuga hann með úðavopni. Viðkomandi verður því kærður vegna brota gegn valdsstjórninni að viðbættri líkamsárásarkæru sem lögð hefur verið fram. 

Í tengslum við skíðaviku var talverð bílaumferð við skíðasvæði í Tungudal og Seljalandsdal við Skutulsfjörð og þurfti lögregla liðsinna ökumönnum vegna þess. Eitt slys var tilkynnt á skíðasvæðinu um helgina þar sem maður var fluttur með sjúkrabifreið undir læknishendur eftir að hafa slasast við fall í skíðakeppni.