23/12/2024

Helen Berglund stjórnar leiklistarnámskeiði á Ströndum

Þjóðfræðistofa og Leikfélag Hólmavíkur bjóða í vikunni upp á leiklistarnámskeiðið Persónusögur undir stjórn Helenar Berglund frá Svíþjóð sem er gestur í Skelinni – lista- og fræðimannadvöl Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Námskeiðið verður haldið í Félagsheimilinu,
fim. 27. janúar frá 20-22 og lau. 29. janúar frá 16-18. Allir
eiga sér sögu og allar persónusögur eru byggðar á mörgum smærri sögum.
Með því að tala saman og spyrja spurninga er ætlunin að kalla fram þessar
sögur, leita að fyndnum, harmrænum, hetjulegum,
heimspekilegum, spennandi og heimskulegum
augnablikum úr lífi hvers og eins þátttakanda.




Á námskeiðinu verða sögurnar svo þróaðar og kannski bætt í og þær búnar til flutnings í lok námskeiðsins. Að vinna með persónusögu hvers og
eins er góð leið til að vinna með leikræna tjáningu án mikils umfangs,
hver og einn getur valið sér form eða hversu mikið hann
sviðsetur sína sögu. Hægt er að vinna með hefðbundinn sagnaflutning eða
þá einhvers konar gjörning – allt eftir þeim tíma og vinnu sem hver og
einn setur í sína eigin persónusögu.

Kennslan fram á bæði ensku og skandinavísku. Þátttökugjald er 3000 kr. og fer skráning og greiðsla fram á staðnum.