22/12/2024

Heilmikið um að vera þessa dagana

Hamingju-HrólfurMikið er um að vera í menningarlífinu á Ströndum og nágrenni um helgina, eins og venjulega yfir sumartímann. Sagnakvöld á Galdrasafninu á Hólmavík eru orðin fastur liður fimmtudaga, föstudaga og laugardaga og á laugardaginn verður opnuð listasýning í Hótel Djúpavík. Þá er einnig málþing að Nýp á Skarðsströnd um Stefán frá Hvítadal sem Strandamenn telja sig eiga töluvert í. Um kvöldið er síðan ball á Café Riis og á sunnudaginn er hátíðisdagur, kraftakeppni, kaffihlaðborð og fjölskyldufótbolti á Sauðfjársetrinu í Sævangi.

Föstudagur 27. júlí

Kl. 21:00 – Álfar og tröll og ósköpin öll.
Sagnaskemmtun á Galdraloftinu í Galdrasafninu á Hólmavík þar sem Sigurður Atlason fer á kostum. Miðapantanir í síma 451-3525.

Laugardagur 28. júlí

Kl. 15:00 – Undir áhrifum
Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður opnar sýningu á verkum sínum í Hótel Djúpavík á Ströndum.

Kl. 15:00 – Dagskrá um Stefán frá Hvítadal
Að Nýp á Skarðsströnd í Dalasýslu verður dagskrá um skáldið Stefán frá Hvítadal. Eins og kunnugt er fæddist Stefán á Hólmavík og er talinn fyrsti innfæddi Hólmvíkingurinn. Tveir fyrirlesarar munu fjalla um skáldskap Stefáns og lífsferil, Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og ritstjóri sem einkum mun fjalla um skáldskap Stefáns og Andrea Harðardóttir sagnfræðingur og kennari sem ræða mun um lífshlaup hans. Léttar veitingar að lokinni dagskrá.

Kl. 21:00 – Álfar og tröll og ósköpin öll.
Sagnaskemmtun á Galdraloftinu í Galdrasafninu á Hólmavík þar sem Sigurður Atlason fer á kostum. Miðapantanir í síma 451-3525.

Kl. 23:00 – Dansleikur á Café Riis
Dansleikur á Café Riis. Hljómsveitin Napóleon sér um fjörið, aðgöngumiðaverð aðeins 1.000.-

Sunnudagurinn – 29. júlí

kl. 14:00 – Kraftakeppni, kaffihlaðborð í Sauðfjársetrinu
Kraftakeppni fyrir alla spræka Strandamenn og gesti þeirra, skráning á staðnum, leikir og skemmtun. Fjölskyldufótbolti og kaffihlaðborð.

kl. 14:00 – Bátsferð með Sundhana í Grímsey
Hefðbundin sunnudagsferð í Grímsey með leiðsögn.