Sú breyting varð nú um mánaðarmótin á rekstri og eignarhaldi Lyfsölunnar á Hólmavík að Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík hefur keypt lyfsöluna af sveitarfélögunum sem ráku hana áður. Tóku kaupin gildi 1. apríl og um leið breyttist opnunartími Lyfsölunnar eða apóteksins þannig að nú er opið alla daga 12:30-16:00. Þetta kemur fram í fréttabréfi Heilbrigðisstofnunarinnar á Hólmavík í mars 2006. Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur engar spurnir haft af kaupverði.
Í fréttabréfinu kemur einnig fram að Anna Daníelsdóttir tannlæknir mun verða við störf á Hólmavík 3.-6. apríl, en þetta er síðasta ferð hennar á Heilsugæslustöðina á Hólmavík. Samið hefur verið við tannlæknana Helga Hansson og Bjarna Sigurðsson að taka við þjónustu á svæðinu og koma á Hólmavík til skiptis í hverjum mánuði.
Guðmundur Sigurðsson læknir verður í leyfi 2.-23. apríl og munu aðrir læknar leysa hann af á meðan. Páll Þorgeirsson verður 2.-9. apríl, Halldór Jónsson 9.-18. apríl og Salóme Ásta Arnardóttir 18.-23. apríl.